Eigum eftir að sjá topp innlagna á gjörgæslu

„Við erum að fylgja spálíkani háskólans mjög vel eftir. Við …
„Við erum að fylgja spálíkani háskólans mjög vel eftir. Við erum meira að segja undir bestu spá nema hvað varðar spá um innlagnir á gjörgæslu, þar erum við yfir bestu spá og höfum verið nálægt verstu spá,“ sagði Þórólfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu dagar munu skera úr um það hvort toppi kórónuveirufaraldursins hafi verið náð hérlendis en óvenju fáir einstaklingar greindust smitaðir af veirunni síðasta sólarhringinn eða 24. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna í dag. 

„Það væri óskandi ef svo væri,“ sagði Þórólfur sem bætti því við að miklu fleirum hefði batnað undanfarið en hefðu smitast. Síðasta sólarhring voru nokkuð færri sýni tekin en dagana á undan en þau voru um 1.100 talsins.

Virk smit í samfélaginu eru nú rúmlega 1.000 en um 5% þjóðarinnar eru í sóttkví eða hafa verið í sóttkví, sem Þórólfur sagði í raun ótrúlegar tölur. 

Nálægt verstu spár um gjörgæsluinnlagnir

„Við fylgjum spálíkani háskólans mjög vel eftir. Við erum meira að segja undir bestu spá nema hvað varðar spá um innlagnir á gjörgæslu, þar erum við yfir bestu spá og höfum verið nálægt verstu spá,“ sagði Þórólfur. Enn á toppur í innlögnum á gjörgæslu eftir að koma fram en nú eru 12 á gjörgæslu. 

Vinna vegna afléttingar samkomubanns og annarra takmarkana á daglegu lífi fólks er enn í gangi og verður áætlun um slíkt kynnt eftir páska. Þórólfur sagði að það þyrfti sömuleiðis að skipuleggja það hvernig við ætlum að standa að komu ferðamanna hingað til lands.

„Tilgangurinn er náttúrlega að tryggja það að við fáum ekki aftur faraldur hér í sumar eða haust,“ sagði Þórólfur, en erlendis hefur faraldurinn sums staðar sprottið upp eftir að takmörkunum hefur verið aflétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert