Vel gengur að halda flæði á kjörstað

Frá kjörstað við Vættaskóla í Grafarvogi í dag.
Frá kjörstað við Vættaskóla í Grafarvogi í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kjörsókn er með ágætu móti og vel hefur gengið að halda góðu flæði á kjörstað, að sögn  Jóhanns Steinars Ingimundarsonar í kjörstjórn Garðabæjar. Kjörsókn er þó minni en í síðustu forsetakosningum árið 2016 en á sama tíma hafa aldrei fleiri greitt atkvæði utan kjörfundar. 

„Við höfum aðeins þurft að gera þetta með öðrum hætti með venjulega til að tryggja þetta flæði þar sem fólk mætist ekki. Öll ferlin hafa virkað vel,“ segir Jóhann.

Sóttvarnaráðstafanir eru í hávegum hafðar á kjörstöðum í dag. Tryggt hefur verið að fólk gangi ekki út á sama stað og það gengur inn, svo betra flæði myndist á kjörstað, en einnig er gengið úr skugga um að það sé nægilegt spritt og hanskar fyrir alla. Þá eru blýantar sótthreinsaðir og ekki geymdir inni í klefum eins og hefur tíðkast áður.

Kjörsókn betri en 2018

„Kjörsóknin virðist vera ágæt, sérstaklega í ljósi þess að við erum búin að fá umtalsvert af utankjörfundaratkvæðum.“ Hann segir þá að á þessum tímapunkti sé kjörsókn betri en hún var í sveitastjórnarkosningunum árið 2018.

Minni raðir hafa myndast á kjörstöðum en oft áður, en telur Jóhann varkárni fólks og aukið flæði á kjörstöðum séu helst ástæðurnar fyrir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert