Tillögur frá sóttvarnalækni á næstu dögum

Tillaga sóttvarnalæknis er að vænta á næstu dögum.
Tillaga sóttvarnalæknis er að vænta á næstu dögum.

Búast má við tillögum frá sóttvarnalækni um framhald aðgerða eftir 13. ágúst á allra næstu dögum. 

Þetta kom fram í máli Ölmu D. Möller landlæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var ekki á fundinum. 

Alma segir að allar mögulegar aðgerðir hafi verið skoðaðar, meðal annars hvort herða eða slaka eigi á aðgerðum. 

Alma segir að enn séu að greinast smit sem tengjast eldri sýkingum. Áfram er varhugavert að draga ályktanir af sveiflum síðustu daga. Ljóst er að það gætir þreytu hjá mörgum við að fylgja reglum og leiðbeiningum, en við verðum að hafa úthald segir Alma. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað tekur við eftir 13. ágúst, en von er á tillögum sóttvarnalæknis á allra næstu dögum. 

Sumir ekki gert neinar ráðstafanir

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var gestur fundarins og fór yfir það ástand sem var á fjölmörgum veitinga- og skemmtistöðum í gærkvöldi. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur notað þá aðferð að reyna að höfða til skynsemi veitingamanna, flestir hafa tekið ábendingum vel og fylgt reglum í starfsemi sinni segir Ásgeir. Einhverjir hafa ekki gert neinar ráðstafanir vegna þeirra reglna sem eru í gildi. 

Nauðbeygð til að breyta verklagi

Ásgeir segir lögregluna nú vera nauðbeygða til að breyta sínu verklagi og herða aðgerðir.  Frá og með deginum í dag mun lögreglan beita þá staði sem ekki virða sóttvarnareglur sektarheimildum og ef brotið er metið alvarglegt verða staðir rýmdir og þeim lokað tímabundið. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, segir lögregluna hafa vonast til þess að þurfa ekki að fara þessa leið, en það hafi sýnt sig að annað gangi ekki. Hann segist hafa haldið að það væri samstaða um það í samfélaginu að vilja ekki beita slíkum reglum en annað hafi sýnt sig undanfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert