Venjast ekki skjálftunum

Grindavík.
Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Grindvíkingar sváfu lítið fyrir jarðskjálftum síðustu nótt en jarðskjálftavirkni jókst umtalsvert í Fagradalsfjalli í gærkvöldi og voru skjálftarnir margir í nótt. Sá stærsti mældist 5,0 að stærð.

Hildur Gunnarsdóttir, snyrtifræðingur og Grindvíkingur, sagði skjálftana síðustu nótt mjög óþægilega og að lítið hefði verið sofið.

„Maður veit aldrei hvað verður næst eða hvar það verður eða verður stórt,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is og bætti við: 

„Þetta er eiginlega lengsta hrinan og langversta. Þetta fer ógeðslega illa með okkur andlega, við erum þreytt.“ En Hildur segir óvissuna versta.

Hildur segir skjálftana í nótt ekki hafa verið eins snarpa og þá alfyrstu, miðvikudaginn 24. febrúar, „en þeir voru bara svo ógeðslega lengi og jörðin hún bara stoppaði ekki, það var eins og maður væri bara með sjóriðu“.

Allir á rúntinum

Hildur sagði þau hjónin hafa verið komin upp í rúm þegar stóri skjálftinn varð um tvö í nótt. „Ég sagði bara: „Nei, ég verð ekki hér inni ég ætla að fara út.“ Ég fór út á rúntinn og var úti á rúntinum í klukkutíma,“ sagði Hildur.

„En svo náttúrulega var ég úti, og það voru allir á rúntinum, ég hitti eina sem var úti að labba með hundana sína af því þeir voru brjálaðir og hún var að róa þá, svo ég stoppaði og á meðan kom einn ábyggilega tæplega fjórir og bíllinn bara hristist og skalf.“

Hildur Gunnarsdóttir.
Hildur Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hildur er Grindvíkingur í húð og hár, fædd og uppalin í Grindavík og því ýmsu vön þegar kemur að jarðskjálftum og segist hafa verið næstum dottin þegar jarðskjálftahrinan gekk yfir Reykjanesskaga árið 1973.

„Ömmur mínar og afar voru bæði úr Grindavík þannig að ég hef alltaf verið hér og finnst æðislega gott að vera hér og vil hvergi annars staðar vera,“ sagði Hildur.

„Orðið ansi langt“

En þó svo að Hildur hafi oft upplifað jarðskjálfta segir hún þá ekki venjast. „Þeir venjast nefnilega ekki, því þeir eru svo misjafnir og aldrei eins, stundum eru þeir mjúkir og stundum eru þeir harðir eins og það komi bíll á húsið, það bara fer eftir því hvar upptökin eru.“ 

„Ég bý hérna í jaðrinum á Grindavík og upptökin á fimmtudaginn þau voru hérna bara bak við hjá mér þannig að það var hræðilegt. Ég hef ekkert verið að æsa mig yfir þessu en þetta er bara orðið ansi langt.“

Aðspurð segir Hildur Grindvíkinga sjálfsagt vera rólega á yfirborðinu. „En undir niðri er smá ótti eða þannig en allir alveg spjalla um þetta og hlæja og svona.“

„Þetta hlýtur að fara að lagast, segir fólk, þetta hlýtur að taka enda einhvern tímann,“ sagði Hildur að lokum og bætti við: „Við skulum rétt vona það.“

Páfagaukurinn kippir sér ekkert upp við skjálftana

Sólveig Halldórsdóttir er rétt eins og Hildur, fædd og uppalin í Grindavík, og rétt eins og Hildur segir hún skjálftana samt sem áður aldrei venjast. Þeir stóru séu alltaf sérstaklega óþægilegir. 

Sólveig segist hafa vakað frá því klukkan tvö til fjögur og síðan þá hafi verið litlir titringar.

„Þetta er búið að standa yfir ansi lengi,“ segir Sólveig. 

Sólveig bendir á að hún eigi einn páfagauk og segir hann ekkert kippa sér upp við skjálftana. „Honum er svo slétt sama,“ sagði Sólveig.

Hundarnir vældu og skældu

Jarðskjálftarnir héldu ekki einungis vöku fyrir Grindvíkingum nóttina sem leið. Rögnvaldur Már Sigurbjörnsson er búsettur í Reykjanesbæ og neyddist til að fara í góða næturgöngu með hundana sína í nótt sem ólíkt páfagauknum hennar Sólveigar stóð ekki á sama þegar jarðskjálftarnir dundu yfir.

„Við búum á annarri hæð og það bara hristist allt og skalf og mikið af drunum þannig séð. Þá verða þeir órólegir og koma upp í og leggjast ofan á mann og væla og skæla og hlaupa fram og upp og niður. 

Við reyndum að vera með þeim frammi og svo voru þeir alltaf að hlaupa niður í forstofu, þá bara ákvað ég að fara út og labba með þá.“

„Þetta voru kannski svona tveir tímar sem maður svaf ekki,“ sagði Rögnvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert