Kenniöldurnar sem mældust á Suðvesturlandi 9. janúar 1990 eru þær hæstu sem hafa mælst hér á landi fram til þessa. Yfirleitt er talað um kenniöldu í öldufræðum, sem er meðaltal af hæstu öldum, og sú hæsta til þessa mældist á Surtseyjarduflinu þetta ár, 16,7 metra há.
Sigurður Sigurðarson, strandverkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir mælingarnar sem fyrst birtust vegna óveðursins í nótt hafa sýnt tæplega 20 metra háar kenniöldur en þær eru væntanlega eitthvað lægri. Einhverjir gallar komu í ljós í mælingunum og eru þær líklega ekki eins háar og fyrst var talið.
„Við erum ekki búnir að skoða allt en þetta slagar kannski ekki alveg upp í þetta veður 1990, en engu að síður voru þetta rosaleg átök og mjög há alda þarna fyrir suðurströndinni,“ segir Sigurður, spurður út í ölduhæðina í óveðrinu.
Öldurnar eru mældar í hálftíma og eru bæði kenniöldur og svokallaðar hæstu öldur mældar á því mælingartímabili. Mögulegt er að hæstu öldur hafi verið hærri í nótt heldur en árið 1990.
Á Garðskaga mældust þær hátt í 30 metrar og ef sú tala fæst staðfest eru það hæstu öldur sem hafa mælst á Íslandi. Til samanburðar mældist hæsta staka aldan 25,3 metrar á Garðskagaduflinu árið 1990 en 22,9 á Surtseyjarduflinu.
Kennialdan upp á 16,7 var á sínum tíma sú hæsta sem hefur mælst í heiminum. Nokkrum árum seinna, eða á tíunda áratug síðustu aldar, mældust síðan bæði í Norðursjó og á austurströnd Bandaríkjanna kenniöldur um og yfir 17 metra.
Núna er heimsmetið aftur á móti 19 metra há kennialda, sem mældist á milli Íslands og Bretlandseyja í febrúar 2013.
Spurður hvernig ölduhæðin er mæld segir Sigurður dufl vera notuð, þ.e. kúlur með 70 sentímetra þvermál. Um er að ræða hollensk dufl sem eru „akkeruð“ í botninn. Til að þau geti fylgt yfirborðinu með upp undir 30 metra hreyfingu er notaður svokallaður gúmmíkapall, samskonar og er notaður í teygjustökki.
Í duflinu er svokallaður hröðunarmælir og út frá honum er reiknað hvað duflið hefur færst mikið upp og niður á hverjum tíma. Mælirinn mælir því ekki vegalengd heldur hröðun, en Vegagerðin rekur ellefu dufl við Íslandsstrendur.