Líklegt að verð á ferðalögum muni hækka

AFP

Kostnaður við flug hefur hækkað vegna gríðarlegra hækkana á olíuverði, sem rekja má til stríðsins í Úkraínu. Það þýðir að ferðaþyrstir Íslendingar sem horfa fram á að komast í sólina, eða fljúga annað erlendis geta búist við verðhækkunum á næstunni. Ferðaskrifstofur gætu jafnframt skoðað að hækka verð á ferðum sem þegar hefur verið greitt inn á.

Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir stöðuna vissulega erfiða en það eigi samt eftir að koma í ljós hvort hækkanir á olíu verði viðvarandi eða muni lækka aftur ef friður kemst á.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða.
Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða. mbl.is/Golli

„Við verðum að taka stöðuna á næstunni og sjá hver næstu skref verða, en ef engin breyting verður þá mun þessi hækkun fara inn í verðlagið á einhverjum tímapunkti.“ Hann segir að kostnaðurinn muni lenda á ferðaskrifstofunum þegar verið er með leiguflug og það sé spurning hvernig hægt sé að mæta því. Spurður hvort það þyrfti að hækka verð hjá þeim ferðalöngum sem væru búnir að greiða inn á ferð, sagði hann að það væri möguleiki, en vonandi myndi ekki koma til þess. „Samkvæmt skilmálum er það möguleiki, en það er fullsnemmt að tala um það núna.“

Hann segir að Heimsferðir finni ekki fyrir minni bókunum í ferðir vegna stríðsins. „Við erum ekki að fljúga neitt nálægt þessum svæðum,“ sagði hann. Erfitt veðurfar á landinu örvar einnig sölu á ferðum til heitari landa.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn.
Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn segir að hækkun olíuverðs muni hækka verð á næstunni. „Pakkaferðirnar munu hækka í verði, því miður, þegar flugfargjöldin hækka,“ segir hún og bætir við að flest flugfélög um heiminn hafi tilkynnt hækkanir vegna olíuverðsins.

Hún segir að hún sjái ekki áhrif af stríðsrekstrinum í bókunum fram í tímann, eins og næsta sumar, en meiri sveiflur séu í ferðum fram að sumri. „Við finnum að bókanir sveiflast svolítið eftir því hvernig fréttirnar eru hverju sinni. Þegar stríðið hófst dróst aðeins saman, en er núna að taka við sér aftur.“ Hún segir þó að ástæðan gæti líka verið tengd covid smitum innanlands. „En við eigum öll eftir að finna fyrir þessum olíuhækkunum, ekki bara ferðaþjónustan. Við finnum það bara í daglegum akstri.“

Ljósmynd/Aðsend

Upplýsingafulltrúi Play, Nadine Guðrún Yaghi, segir að fylgst sé grannt með stöðunni. „Það eru miklar sveiflur í verðinu núna og við fylgjumst bara stanslaust með gangi mála og ræðumst við eins og þarf. Það gæti orðið raunin ef ástandið breytist ekki að flugmiðar muni hækka, en of fljótt að segja til um það núna. Hins vegar er salan mjög góð þessa dagana og við finnum að fólk er mjög ferðaþyrst eftir covid árin. Svo hefur leiðinlegt veður á landinu líka mikil áhrif.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert