Það vantar skilgreiningu á slaufunarmenningu

Í skáldsögunni Einlægur Önd, eftir Eirík Örn Norðdahl, segir frá rithöfundi, Eiríki Erni Norðdahl, sem missir æruna vegna bókar sem hann skrifar. Hluti af flækjukennt lífi Eiríks bókarinnar er skáldsaga sem hann er skrifa um Felix Ibaka, sem býr í borginni Angri í Arbítreu og er líka að skrifa bók. Ýmislegt angrar líka Felix Ibaka, til að mynda það að bókin sem hann er að skrifa hefur tekið á sig sjálfstætt líf, er að skrifa sig sjálf, en líka það að hann kom svo illa fram við Flórensíu eiginkonu sína að hún svipti sig lífi. Samborgarar hans minna hann daglega á skömmina með því að leggja múrsteina utan við heimili hans og vinnustað og hann skilar múrsteinunum á tiltekinn stað, svo fólk geti gengið að steinum til að smána hann frekar.

Ýmsir lesendur bókarinnar gerðu því skóna að Eiríkur væri að skrifa um það fyrirbæri sem kallað hefur verið slaufunarmenning, og gengur einna helst út á það að óalandi og óferjandi leppalúðar fái ekki þrifist í samfélaginu. Eiríkur segir að vandinn við slaufunarmenningu sé að það vanti skilgreiningu á henni, fólk sé að tala um ólíka hluti þegar hún sé annars vegar

„Fyrir mér er umfjöllunarefnið bæði utanaðkomandi skömm, einhver sem hefur skammað þig, og hugmynd um hvenær þú getir sjálfur leyft þér að hugsa: Nei, nú er ég aftur. með, nú ætla ég ætla ég ekki látið það trufla mig þó að þótt einum af hundrað finnist ég eigi ekki að vera með.

Það er í sjálfu sér hægt að hafa alls konar skoðanir hver stendur á bak við ofsóknirnar sem Eiríkur Örn bókarinnar verður fyrir, en en þær eru alla vega þess eðlis að það þarf ekki að vera neinn hópur það getur bara verið einhver einn sem hendir múrsteinunum.“

— Í bókinni má segja að það sé búið að kerfisvæða skömmina, allir vita að hverju þeir ganga.

„Það er rosa erfitt að kerfisvæða svona hluti. Besta tilraun okkar til þess að kerfisvæða þetta er réttarkerfið sem er að bregðast og ósætti með það verður til þess að við förum aftur í kúltúr skömmunar og slaufunnar og fjörbaugsgarðs. Réttarkerfið átti að leysa þessi vandamál en vegna þess að það gerir það ekki þá erum við komin aftur á þennan stað.“

— Þegar menn hafa stigið fram og játað opinskátt og algerlega, tekið á sig skömmina þá hætta menn að tala um þá.

„Ég held þetta sé. ofsalega persónubundið og ég er að hugsa um þetta út frá einstaklingum. Það var í Stundinni yfirlit yfir slaufaða karlmenn, litlir dálkar svo stóð við hvern og einn: Afleiðingar: Engar. Afleiðingar: Rekinn úr starfi. Afleiðingar: Sagði af sér. Afleiðingar: Engar.

Ég starði á þetta og hugsaði svo: ef maður setur sig í spor þessara manna verður hugmyndin Afleiðingar: Engar nánast absúrd, alla vega ef ég set mig í þessi spor. Ég væri eyðilagður, afleiðingin væri kannski fjögur hundruð sálfræðitímar, rosalega mikil sjálfsvinna og sjálfsfyrirlitning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert