Vél NiceAir komin aftur til skuldaranna

Vélin er á leið til Möltu og er í höndum …
Vélin er á leið til Möltu og er í höndum leigufélagsins HiFly. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Airbus flugvélin sem NiceAir hafði undir höndum en kyrrsett var og tekin af félaginu í Kaupmannahöfn er aftur komin í hendur leigufélagsins sem leigði vélina til NiceAir og heitir HiFly. Avalon Aircraft Leasing á vél­ina sem HiFly fram­leigði til NiceA­ir. HiFly hefur ekki haft samband Við NiceAir. 

Stjórnendur NiceAir velta því fyrir sér hvernig á þessu standi en samkvæmt gögnum sem mbl.is hefur undir höndum voru ástæður sem flugmönnum NiceAir voru gefnar í Kaupmannahöfn þegar vélin var tekin vissulega þær að HiFly hafi ekki staðið við greiðslur til Avalon Aircraft leasing fyrir vélina. 

Hafi viljað hærra verð fyrir vélina

Vélinni var flogið frá Kaupmannahöfn til Írlands þar sem Avalon Aircraft leasing var með vélina í sinni umsjá. Á skráningarsíðu flugvéla sagði að til stæði að senda vélina í brotajárn. Nú er vélin hins vegar aftur komin í hendur Hifly og er á leið til Möltu frá Vín þegar þetta er skrifað en Hifly er með höfuðstöðvar á Möltu. 

Ein af þeim tilgátum sem menn í flugheiminum hafa sett fram er sú að sökum þess að leiguverð er í hæstu hæðum vegna mikillar eftirspurnar og skorts á flugvélum hafi HiFly viljað losna úr samningi við NiceAir til að fá hærra verð fyrir vélina. Þannig hafi félagið viljandi ekki gert upp við Avalon Aircraft leasing en svo gert upp við félagið til að fá vélina í sína umsjá. 

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson og og Ásthildur Sturludóttir klippa á borða …
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson og og Ásthildur Sturludóttir klippa á borða þegar NiceAir hóf flugferðir á vegum félagins. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Engu að síður átti ferðaskrifstofan NiceAir eftir um 20 mánuði af samningi sínum við HiFly og ljóst að tryggingar liggja að baki samningum. Stjórnendur NiceAir eru samkvæmt heimildum mbl.is hvumsa yfir þessum vendingum og er valkostur í stöðunni að sækja bætur til HiFly. Þá hafi þeir ekki fengið neinar upplýsingar um það frá HiFly hver afdrif vélarinnar verða. 

Þrír valkostir í stöðunni  

Stjórnarmenn og hluthafar í NiceAir liggja undir feldi þessa dagana varðandi næstu skref sem flugfélagið mun taka. Þrír valkostir eru í stöðunni og áhöld eru um það hvort félagið hafi misst af sumartraffíkinni í ljósi þess að félagið aflýsti öllu flugi.  

Samkvæmt heimildum mbl.is er ekki einhugur um það hvað beri að gera. Valkostirnir í stöðunni eru þeir að reyna að fá flugvél sem fyrst og ná einhverju af „sumartraffíkinni.“ Sjá sæng sína útreidda hvað sumarið varðar og stefna að því að hefja flugferðir að nýju næsta vor eða að hætta rekstrinum alfarið. 

Eins og fram hefur komið hefur NiceAir tryggt sér 200 milljónir króna fjárfestingu. Ekki hefur verið gengið á hana eftir því sem haft var eftir Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra félagsins, í frétt á mbl.is fyrir um tveimur vikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert