Svolítið grunsamlegt

Matvælastofnun hvetur alifuglaræktendur og alla sem halda fugla til að …
Matvælastofnun hvetur alifuglaræktendur og alla sem halda fugla til að huga vel að smitvörnum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Eins og er liggur fyrir þessi greining í stokköndinni og það segir okkur að veiran er aftur komin til landsins,“ segir Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifugla hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is um fuglaflensutilfelli í stokkönd í Garðabæ sem greint var frá hér á vefnum í gær.

Segir Brigitte ómögulegt að segja til um hvort veiran hafi borist til landsins með farfuglum í vor eða haft vetursetu á landinu. „Við fundum alla vega ekkert í vetur í villtum fuglum en við ítrekum þessa viðvörun til alifuglabænda og bara til allra sem halda fugla, að nú er meiri smithætta fyrir alifugla svo við biðjum fólk að gæta mjög vel að smitvörnum,“ segir hún. Allir alifuglar eigi nú að vera í lokuðum gerðum en ekki lausir.

Segir Brigitte fyrstu fuglaflensugreiningu á landinu hafa verið haustið 2021, „en við vissum ekkert af henni fyrr en vorið 2022, það var örninn sem fannst á Breiðafirði, og árið 2022 er fyrsta árið sem við erum með fuglaflensufaraldur í villtum fuglum þótt faraldrar hafi verið árin áður í Evrópu, við höfum alltaf fylgst með hvort eitthvað komi með farfuglum hingað til lands“, segir hún.

Á frumstigi í rannsókn

Farfuglar hafi byrjað að koma til landsins í febrúar og mars nú í ár en þó hafi Matvælastofnun ekki borist neinar tilkynningar af dauðsföllum fyrr en nú fyrir síðustu helgi þegar ritur fóru að drepast í stórum stíl. Ekki hafi þó greinst fuglaflensa í þeim eins og er svo málið sé óljóst.

„Þetta er svolítið grunsamlegt og við erum að taka fleiri sýni og rannsökum þetta betur en getum ekki sagt mikið í augnablikinu. Er þetta bara þessi eina stokkönd eða er eitthvað meira í gangi? Svo við erum bara á frumstigi núna eiginlega,“ segir dýralæknirinn og bendir á að mikil fuglaflensa hafi verið í máfum í Evrópu í vetur.

Stokkönd í Garðabæ greindist með skæða fuglaflensu. Þetta er þó …
Stokkönd í Garðabæ greindist með skæða fuglaflensu. Þetta er þó ekki hún.


„Það er misjafnt milli ára á hvaða tegundir þessar veirur leggjast mest, þær færa sig í aðlögunarhæfni milli tegunda, í fyrra voru það súlurnar og í vetur voru það máfarnir. Þess vegna biðum við sérstaklega eftir því að allir máfar væru komnir í vor í þeirri von að geta aflétt sóttvarnareglum,“ segir Brigitte Brugger dýralæknir og vill að lokum ítreka fyrri boð Matvælastofnunar:

„Við viljum endilega biðja almenning að láta okkur vita finni fólk veika eða dauða fugla og einnig með alifuglabændur og aðra sem halda fugla að þeir gæti sérstaklega vel að smitvörnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert