Fékk 10 fyrir meistararitgerð í lögfræði

Guðrún Sólveig ásamt Víði Smára, leiðbeinanda sínum, og Þorgeiri Örlygssyni, …
Guðrún Sólveig ásamt Víði Smára, leiðbeinanda sínum, og Þorgeiri Örlygssyni, prófdómara. Ljósmynd/HÍ

Guðrún Sólveig Sigríðardóttir varð í gær fyrst manna til að fá 10 í einkunn fyrir meistararitgerð við lagadeild Háskóla Íslands, samkvæmt nýrri færslu á Facebook-síðu deildarinnar.

Ritgerðin ber titilinn „Sambúð 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu: Standa rök til breytinga á nálgun íslenskra dómstóla?“ og fjallar um vernd eignarréttar samkvæmt stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu.

Í færslu lagadeildarinnar er greint frá að í ritgerðinni sé litið til nýlegrar þróunar á vettvangi Mannréttindadómstólsins sem felst í aukinni áherslu á gæði málsmeðferðar. Með hliðsjón til þessarar þróunar sé því velt upp hvort rök standi til breytinga á nálgun íslenskra dómstóla við úrlausn um stjórnskipulegt gildi eignarskerðinga. Leiðbeinandi Guðrúnar var Víðir Smári Petersen, dósent við lagadeild HÍ, og prófdómari Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Guðrún skarar fram úr í námi en árið 2017 útskrifaðist hún úr MR sem dúx skólans.

Guðrún útskrifaðist þar að auki með hæstu meðaleinkunn á BA-prófi í sögu lagadeildar Háskóla Íslands fyrir tveimur árum.

Í samtali við mbl.is segir Guðrún einkunnina fyrir meistararitgerðina hafa komið mjög á óvart. „Ég hélt að það væri ekki möguleiki á að fá þessa einkunn,“ segir Guðrún. Hún segist hafa fagnað áfanganum en tekur þó fram að hún byrji strax að vinna og hafi þar af leiðandi ekki tíma til að missa sig í fagnaðarlátum.

Aðspurð um framtíðarstefnu segir Guðrún að hún ætli að halda áfram á núverandi vinnustað.

„Ég ætla að halda áfram að vinna á Lex Lögmannstofu og svo vonandi fá lögmannsréttindin bráðum,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert