Stefnir á lögfræði næsta haust

Snædís Hekla Svansdóttir, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla, ásamt Magnúsi Ingvasyni …
Snædís Hekla Svansdóttir, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla, ásamt Magnúsi Ingvasyni skólameistara og Kristrúnu Birgisdóttur, aðstoðarskólameistara. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held ég þrífist bara best á því að hafa mikið að gera,“ segir Snædís Hekla Svansdóttir, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Snædís útskrifaðist með ágætis einkunnina 9,1 eftir aðeins tvö og hálft ár í námi. Þegar mest lét var hún í þremur vinnum með skóla en lætur nú tvær vinnur nægja. Snædís byrjaði að flýta fyrir náminu í grunnskóla og tók þar þrjá áfanga áður en í framhaldsskóla var haldið.

Tók framhaldsskólaáfanga í níunda bekk

„Ég byrjaði í níunda bekk í fjarnámi hjá Verzló og náði þannig að flýta aðeins fyrir, ég var til dæmis nánast búin með enskuna áður en ég byrjaði í framhaldsskóla,“ segir hún og bætir við að skipulag hafi átt ríkan þátt í árangrinum, enda með nóg á sinni könnu samhliða náminu.

„Ég er að vinna í Mosfellsbakaríi og hef unnið þar síðan ég byrjaði í framhaldsskóla. Síðan var ég líka að vinna á Lemon og Castello meðal annars. Þegar það var mest að gera var ég í þremur vinnum; í bakaríinu, á Castello, á Lemon og að passa fyrir tvær fjölskyldur. En núna er ég bara í bakaríinu og að passa.“

Finnst best að hafa mikið að gera

Spurð hvernig hafi gengið að skipuleggja námið samhliða þessu segir hún:

„Ég held að ég þrífist best á því að hafa mikið að gera. Mér finnst það bara þægilegast og ég held að það hafi hjálpað. Ég mæli með því að skipuleggja sig, leggja sig fram, mæta vel og fylgjast vel með í tímum, ég get allavega sagt að það hafi hjálpað mér.“

Nú tekur tekur við frí frá námi en í vor varð Snædísi ljóst að stefnan skyldi sett á lögfræði.

„Mér fannst ótrúlega gaman í ensku og lögfræði. Ég tók einn lögfræði áfanga í FÁ, lögfræði fyrir viðskiptalífið. Þetta var bara einn áfangi en mér fannst hann frábær. Ég held ég taki smá pásu frá námi og fari síðan í lögfræði í Háskóla Íslands í haust,“ segir Snædís í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert