„Við ætluðum bara að hræða þá“

Fjórði dagur í aðalmeðferð Bankastrætis Club-málsins svokallaða fór fram í …
Fjórði dagur í aðalmeðferð Bankastrætis Club-málsins svokallaða fór fram í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við ætluðum bara að hræða þá“  eða „við ætluðum bara ræða við þá“ segja sakborningarnir flestir í kór í Bankastræti Club-málinu sem er að taka á sig mynd nú þegar einstaklingarnir 25, sem ákærðir eru í málinu, hafa gefið vitnisburð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur auk fórnarlamba og vitna.

Er fjórum dögum af sjö lokið af aðalmeðferðinni. Sakarefnið sem þessum 25 er gefið er það að hafa tekið mismikinn þátt í að ráðast á þrjá einstaklinga sem ítrekað eru sagðir úr „latínó genginu“ eða „latínó hópnum“ þegar þeir voru að skemmta sér á Bankastræti Club 18. nóvember í fyrra.  

„Mér var bara rétt gríma“

Sú saga sem sakborningar segja er saga glundroða, flónsku og veikra högga sem hittu ekki í mark. Enginn segist kannast við það að mögulega hefðu vopn verið með í för. Nema sá sem er ákærður fyrir tilraun til manndráps, enda hefur hann játað á sig að hafa stungið tvo ef þeim þremur sem ráðist var á. 

Vitni mætir fyrir dóminn.
Vitni mætir fyrir dóminn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkt og fram hefur komið ruddust mennirnir grímuklæddir inn á Bankastræti Club. Enginn man þó hvernig stóð á því að þeir hefðu verið með grímu meðferðis.

„Mér var bara rétt gríma“ er algengt viðkvæði. Einskis var spurt. Sumir sögðu þó að þeir hefðu ekki viljað að fórnarlömbin myndu þekkja þá.   

Bar „barnakylfu“ 

Hið óreiðukennda einkennir frásögn hópsins af árásinni ef undan eru skildir nokkrir frasar. Þannig var algengur frasi hjá þeim sem lentu í átökunum að þeir hafi „fleygt höndum“ án þess að hitta marks. Minnst einn bar á sér kylfu, sem hann kallaði „barnakylfu“. Þeir sem viðurkenndu að hafa hæft fórnarlömbin sögðu að höggin og spörkin hefðu lent á í fótlegg eða handlegg. 

Það er nú verkefni dómarans er að átta sig á framvindu málsins og ákæruvaldsins að sanna hver gerði hvað. Til þess gegna myndbönd úr öryggismyndavélum lykilhlutverki.

Þekktu ekki fórnarlömbin

Athygli vekur hve margir þeirra sem ákærðir eru segjast ekki þekkja fórnarlömbin. Aðrir segjast hafa verið í áralöngum deilum við það sem þeir kalla „latínógengið.“ Er sú klíka ítrekað sögð hafa beitt ofbeldi í gegnum tíðina. Þá eru liðsmenn hennar sagðir þekktir fyrir að bera hnífa og hóta fjölskyldumeðlimum nokkurra sakborninga.

Margir dyraverðir  

Eitt af því sem fram kom í máli sakborninga eru deilur eins dyravarðarins við eitt fórnarlambanna. Segist hann hafa sætt hótunum frá einu fórnarlambanna. Auk þess sem kveikt hafði verið í mótorhjóli í hans eigu í kjölfar þess að hann bar vitni í öðru sakamáli. 

Þá virðist sem Snapchat-hópur gegni lykilhlutverki í þeirri atburðarrás sem átti sér stað síðar um kvöldið. Snapchat-hópurinn bar heitið „Kvöldið í kvöld.“ Voru upphaflega 10 meðlimir í hópnum en meðlimum fjölgaði í henni eftir því sem leið á kvöldið. 

Þar hafi mönnum verið stefnt á skemmtistaði í bænum og úr varð að stærstur hluti hópsins hittist á skemmtistaðnum Dubliners. Þar var hist til skrafs og ráðagerðar áður en ákveðið var að halda í átt að bankastræti Club. 

Eitt fórnarlamba í málinu.
Eitt fórnarlamba í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur í máli eins vitnisins að þar hafi verið rætt um að hafa uppi á sérstaklega einu fórnarlambanna „til að láta þetta stoppa“ og vísaði þar til hótana og ofbeldis í garð dyravarða á undanförnum árum. „Löggan hefur aldrei gert neitt,“ segir eitt vitnanna og því hafi staðið til að „stilla til friðar,“ „ræða við fórnarlömbin“ og annað í þeim dúr.      

„Ég skammast mín alveg niður í tær“

Svo virðist sem mismikill skilningur hafi verið hjá mönnunum varðandi það hvers vegna þeir voru hvattir til að setja á sig grímu og halda af stað í átt að Bankastræti Club. 

„Þetta er heimskulegasti hlutur sem ég hef gert á minni ævi,“ sagði einn þeirra sem ákærður var fyrir alvarlega líkamsárás og bætti við að hann ætti ekkert sökótt við fórnarlömbin.

„Ég skammast mín alveg niður í tær fyrir að hafa tekið þátt í svona bulli,“ sagði háskólanemi sem tók sér frí frá próflestri fyrr um kvöldið en endaði svo í VIP-herbergi á Bankastræti Club að veitast að fórnarlömbunum.

Margir völdu að klæða sig vel.
Margir völdu að klæða sig vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þekktust ekki allir 

Fleiri sögðu svipaða sögu. Þannig hafi þeir haft óljósar fregnir af því að hópslagsmál væru í vændum. Enn aðrir hafi hreinlega bara fylgt hópnum án þess að þekkja stærstan hluta hans. 

Sumir hinna ákærðu viðurkenndu þó að vera reiðir út í fórnarlömbin vegna fyrri atvika.

Allt yfirstaðið á 10-15 sekúndum 

Hvað sem því líður ákvað hópurinn að hittast fyrir utan Bankastræti Club eftir að ábending barst til hópsins um að eitt fórnarlambanna væri þar. Tekin var ákvörðun um að ryðjast inn á klúbbinn þar sem þeir gengu í einfaldri röð áður en hluti hópsins greikkaði sporið, fór niður stiga og inn í VIP-herbergið þar sem þrír liðsmenn meints „latínó gengis“ voru fyrir.

Tíu úr hópnum réðst á þá með höggum, spörkum og hnífsstungum. Hinir komust ekki að, festust í traffík eða snérist hugur. Að lágmarki einn beitti eggvopni og er hann ákærður fyrir tilraun til manndráps. Hinir réðust á þá með höggum og spörkum í leiftursnöggri árás. Allt var yfirstaðið á 10-15 sekúndum. Eftir sátu fórnarlömbin með 10 stungusár og áverka eftir barsmíðar. 

„Ég ætlaði ekkert að gera en svo sá ég rautt þegar ég sá hann,“ segir einn mannanna sem ákærður er í málinu.       

Þeir tíu sem fóru inn í herbergið eru allir ákærðir fyrir alvarlegar líkamsárás en hinir fimmtán fyrir liðsinni við árásina.   

Hræddur um að deyja 

Fórnarlömbin þrjú báru vitni í dag. Huldu þau andlit sín þegar þau komu í Gullhamra þar sem aðalmeðferð fer fram. Sögðust þeir ekkert kannast við það að vera meðlimir „latínóhópsins.“   „Við vorum bara að skemmta okkur í [VIP] herberginu þegar það var ráðist á okkur.“ Þeir hafi hins vegar ekki átt neitt sökótt við þá sem ákærðir eru í málinu. 

Spurður af saksóknara hvernig honum hafi liðið eftir árásina sagði eitt fórnarlambanna: „Ég var hræddur (....) við að deyja.“  

Fram kemur að þeir hafi dvalið á spítala í fjóra til fimm daga eftir árásina með tíu stungusár í heild. Einn þeirra kom því við að fara í viðal við útvarpsstöðina FM 957 tveimur dögum eftir árásina.   

Þrír dagar eru eftir af aðalmeðferðinni. Á morgun verður m.a. leitað vitnisburðar lögreglumanna. Eftir helgi verður svo málflutningur í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert