„Við viljum Ísland sem er loftslagsþolið“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Þetta kom fram í ávarpi Guðlaug­s Þórs Þórðar­sonar, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, sem ávarp­aði kynningu á fjórðu mats­skýrsla vís­inda­nefnd­ar um lofts­lags­breyt­ing­ar í morgun.

Tækifæri til að gera betur

„Ísland hefur eins og flestar þjóðir gert það að markmiði sínu að draga úr loftslagsbreytingum,“ sagði Guðlaugur og bætti við að loftslagsmálin hefðu reynst flestum þjóðum erfið viðureignar. Það mætti sjá af umtalsverðum áhrifum þeirra á náttúruna.

Guðlaugur sagði loftlagsáhrifin þó ekki einungis hafa áhrif á náttúruna heldur einnig samfélög, atvinnu og efnahag. Hann sagði áhrifin mismikil eftir geirum en að í áskorununum væru þó tækifæri til að gera betur, til að mynda í nýsköpun.

„Við viljum Ísland sem er loftslagsþolið,“ sagði hann og því þyrfti ríkið að styðja sveitarfélögin í þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir. Sem dæmi nefndi hann að náttúruvá myndi á næstu árum magnast, til að mynda í formi skriðufalla, flóða og hækkandi sjávarstöðu.

Áhrif loftslagsbreytinga á samfélagið

Hann sagði nauðsynlegt að meta loftslagsáhættu þvert á samfélagið og að það væri fyrst og fremst hlutverk stjórnvalda að tryggja aðgengi að góðum og skiljanlegum upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga á samfélagið.

„Þessi skýrsla er mikilvægur grundvöllur að slíkri vinnu,“ sagði Guðlaugur enda auki hún á þekkingu innan málaflokksins.

„Við munum nýta hana í þágu loftslagsmála og aðlögun samfélagsins að breyttum heimi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert