Engin merki um að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs

Magnús Tumi telur að það sé ekki rétt að rýma …
Magnús Tumi telur að það sé ekki rétt að rýma Grindavík á þessum tímapunkti. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að engin merki séu enn þá um að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs undir Svartsengi.

Eftir miðnætti í nótt hófst kröftug skjálftahrina og mældist stærsti skjálftinn 4,8 að stærð. Síðasta sólarhring hafa mælst í kringum 1.400 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, þar af sjö yfir 4 að stærð frá miðnætti.

Óbreytt ástand

„Þetta er öflugasta skjálftahrinan fram að þessu en hún er ekkert á allt öðrum skala en áður hefur verið. Kvikan virðist vera að safna sér saman á svipaðan hátt og verið hefur en engin merki eru komin fram sem bendir til þess að kvika sér að færast til eða leita til yfirborðs. Við erum í óbreyttu ástandi,“ segir Magnús Tumi við mbl.is.

Magnús Tumi sagði við mbl.is á dögunum að Grindavík væri ekki í hættu ef það gýs norðvestan Þorbjarnar.

„Auðvitað getur það endað með því að hraun renni til Grindavíkur, en ef það gýs norðvestan við Þorbjörn þá rennur hraunið til sjávar vestan Grindavíkur. Það er ekki hægt að útiloka að það gjósi nær Grindavík en það er ólíkleg sviðsmynd,“ segir Magnús Tumi.

Ekki rétt að rýma Grindavík

Spurður hvort rýma ætti Grindavík eða gera aðrar ráðstafanir af því tagi segir Magnús Tumi:

„Ég tel ekki rétt að rýma Grindavík. Þó að það kæmi upp gos utan við Þorbjörn þá ætti samt sem áður að vera nægur tími til stefnu til að rýma bæinn. Þar fyrir utan, sem er algjört lykilatriði, þá sjáum við engin merki þess að kvika sé að byrja að brjóta sér leið upp til yfirborðs.

Þú ferð ekki að hugsa um svona aðgerðir fyrr en þú sérð slíkt. Að rýma staði ef bráð hætta ber að er algjörlega nauðsynlegt, en við erum ekki komin þangað enn þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert