Losun á pappír og plasti einni viku á eftir áætlun

Hirða á matarleifum og blönduðum úrgangi hefur verið sett í …
Hirða á matarleifum og blönduðum úrgangi hefur verið sett í forgang í Reykjavík þar sem um er að ræða úrgang sem brotnar niður og fer að lykta á meðan hægt er að fara með pappír og plast á grenndarstöðvar. mbl.is/Hákon

Reykjavíkurborg gefur út að losun sorps fari fram á annars vegar tveggja vikna fresti á matarleifum og blönduðum úrgangi og hins vegar þriggja vikna fresti á pappír og plasti.

Losun á matarleifum og blönduðum úrgangi hefur almennt verið á áætlun en losun á pappír og plasti er í dag einni viku á eftir áætlun en hefur mest verið um tveimur vikum á eftir áætlun í þeim hverfum sem lent hafa í lengstu töfunum á losun.

Snjóþyngsli, hálka og bilanir

Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg segir í samtali við mbl.is að bilanir hafi hægt á losun á pappír og plasti en þegar bílar bila í flotanum sé þeir færðir á milli verkefna.

„Það er ákveðinn hópur í matarleifum og blönduðum úrgangi og það er ákveðinn hópur í pappír og plasti. Losun matarleifa og blandaðs úrgangs hefur gengið mjög vel og við höfum almennt verið á áætlun frá því við innleiddum hirðuna á matarafgöngunum.

Við höfum sett þá hirðu í forgang þar sem um er að ræða úrgang sem brotnar niður og fer að lykta á meðan hægt er að fara með pappír og plast á grenndarstöðvar. Þegar illa hefur gengið, eins og þegar bílar bila, höfum við þess vegna fært bíla úr pappír og plasti yfir í hirðingu á matarleifum og blönduðum úrgangi.“

Guðmundur segir þau hverfi sem lent hafi í verstu töfunum vera Hlíðarnar, Laugardalinn, Háaleitið og Bústaðahverfið. „Þau fengu losun í byrjun desember og svo ekki aftur fyrr en í lok fyrstu eða byrjun annarrar viku í janúar.“

Segir hann að komið hefði verið að hirðu í þessum hverfum strax eftir jólin en þá hafi snjóað svolítið á jóladag og annan í jólum sem hægði á yfirferðinni. Í kjölfarið hafi rignt og hlánað og þá myndast hálka sem gerði að verkum að bílarnir komust ekki jafn hratt yfir. Í kjölfar þess hafi fjórir bílar bilað og einn verið bilaður fyrir.

„Þar með var einn þriðji bílaflotans óvirkur. Þá voru bílar færðir úr pappír og plasti yfir í hirðingu á almennu sorpi og þar með hægðist á hirðu á pappír og plasti.“

Ástandið var ekki glæsilegt í ruslageymslu fjölbýlishúss í Brautarholti í …
Ástandið var ekki glæsilegt í ruslageymslu fjölbýlishúss í Brautarholti í byrjun janúar. mbl.is/Árni Sæberg

Stefna á tveggja vikna hirðutíðni

Í lok fyrstu viku janúar komust fjórir bílar í lag að sögn Guðmundar og í annarri viku janúar var viðbótarbíll leigður af verktaka til að mæta þessum bilunum. Þegar Íslenska gámafélagið var komið á rétta áætlun í Garðabæ, 11. janúar, gat borgin fengið aðstoð frá þeim, laugardaginn 13. janúar.

Hann segir að slakað hafi verið á losun matarleifa og blandaðs úrgangs í síðustu viku til að vinna upp losun á pappír og plasti og þannig sé hirðan á almennu sorpi um það bil einum degi á eftir. Á sama tíma hafi pappír og plast komist aftur í fjögurra vikna hirðutíðni á laugardag eða einni viku á eftir útgefinni þriggja víkna hirðutíðni.

Til samanburðar er útgefin hirðutíðni í Hafnarfirði fjórar vikur en í Mosfellsbæ og Garðabæ þrjár vikur. Kópavogur er með útgefna tveggja vikna hirðutíðni. Guðmundur segir að þangað stefni Reykjavíkurborg.

„Við höfum hins vegar verið að máta okkur inn í þetta, að fjölga mannskap og þá hafa bílar tekið upp á því að bila.“

Segir Guðmundur að þrír nýir bílar séu væntanlegir í apríl og þannig vonast hann til að borginni takist að færa sig yfir í tveggja vikna hirðutíðni í vor. Vonast hann jafnframt til að nýir bílar muni geta leyst af einhverja af eldri bílunum og þannig verði hægt að uppfæra bílaflotann að hluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert