Ekki ljóst hvað tekur við þegar lokað verður á Dalvegi

Stöð Sorpu við Dalveg í Kópavogi verður lokað nú í …
Stöð Sorpu við Dalveg í Kópavogi verður lokað nú í september. mbl.is/Árni Sæberg

Endurvinnslustöð Sorpu við Dalveg í Kópavogi verður lokað í september á þessu ári, þrátt fyrir að ekki sé enn búið að ákveða hvað komi í hennar stað.

Þetta staðfesta bæði Gunnar Dofri Ólafsson upplýsingafulltrúi Sorpu og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi.

Dalvegur hafi verið tímabundin staðsetning

„Staðsetning Sorpu á Dalvegi var alltaf tímabundin enda í ósamræmi við aðalskipulag Kópavogsbæjar. Núverandi staðsetning er til að mynda við Kópavogsdalinn sem er eitt helsta útivistarsvæði Kópavogs. Þá er talsverð slysahætta á Dalvegi vegna starfsemi stöðvarinnar á svæðinu enda miklir þungaflutningar um götuna,“ segir Ásdís í skriflegu svari til mbl.is.

Bæði Gunnar Dofri og Ásdís benda á að nú sé í gangi starfshópur, með fulltrúum Sorpu og kjörnum fulltrúum úr Kópavogi og Garðabæ. Starfshópnum er ætlað að meta þörf á endurvinnslustöð á svæðinu, þ.e. stöð sem þjóni einkum Kópavogi og Garðabæ.

Grenndarstöðvum í Kópavogi verði fjölgað

Ásdís bendir jafnframt á að grenndarstöðvum í Kópavogi verði fjölgað í Kópavogi um þrjár, og verði því 14 í stað 11 nú.

Hún bætir við: „Á sumum stöðvum mun einnig verða komið upp myndavélaeftirlitskerfi. Í Kópavogi fara starfsmenn bæjarins tvisvar sinnum í viku til að hreinsa upp úrgang sem íbúar hafa losað sig þar við utan við gáma, en slæm umgengni um stöðvarnar hefur aukist mikið á síðustu misserum sem er miður.“

Rík áhersla lögð á að endurvinnslustöð verði í Kópavogi

Ásdís segir bæinn leggja ríka áherslu á að finna góða staðsetningu endurvinnslustöðvar í Kópavogi.

„Staðsetning á nýrri Sorpustöð þarf hins vegar að horfa út frá nokkrum þáttum eins og til dæmis hvar aðrar stöðvar eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og tengingum við meginstofnvegi. Sorpa er rekin af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og lykilatriði að ný stöð sé vel staðsett,“ segir Ásdís að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka