„Ég vil bara finna hann“

Jón Þröstur Jónsson á gangi skömmu eftir að hann gekk …
Jón Þröstur Jónsson á gangi skömmu eftir að hann gekk út af hóteli sínu í Dublin 9. febrúar 2019. Úr upptöku öryggismyndavélar

Lögreglan í Dublin, höfuðborg Írlands, telur tvær nafnlausar vísbendingar geta haft þýðingu í tengslum við hvarf Jóns Þrastar Jónssonar þar í borginni fyrir réttum fimm árum, sem vakti þjóðarathygli á Íslandi, en Jón Þröstur heimsótti Dublin með það fyrir augum að etja þar kappi við aðra pókeráhugamenn á pókermóti.

Eftir að Jón Þröstur yfirgaf Bonnington-hótelið skömmu fyrir hádegi laugardaginn 9. febrúar 2019 hefur ekkert til hans spurst fyrir utan hvað upptökur öryggismyndavéla sýndu hann á göngu, sú síðasta þar sem hann gekk fram hjá aðalinngangi Highfield-sjúkrahússins.

„Tíminn líður mjög hratt“

Þegar Jana Guðjónsdóttir, unnusta Jóns Þrastar, kom til borgarinnar þennan sama dag – degi á eftir honum – svaf hann á hótelherberginu. Eftir að hún hafði vakið hann brá hún sér niður og fékk sér kaffi en þegar hún sneri aftur upp á herbergið var Jón Þröstur farinn og hafði ekki skilið eftir neins konar skilaboð um hvað því ylli.

Anna Hildur og Davíð Karl, systkini Jóns Þrastar, eru nú stödd í Dublin, fimm árum eftir hvarf bróður síns, og ræða við írska ríkisútvarpið RTÉ. Kveða þau árin fimm hafa verið hreinan tilfinningarússíbana fyrir ástvini Jóns Þrastar.

Davíð Karl og Anna Hildur ræða við írska ríkisútvarpið í …
Davíð Karl og Anna Hildur ræða við írska ríkisútvarpið í dag. Skjáskot/Fréttir RTÉ

„Nú eru fimm ár liðin. Tíminn líður mjög hratt,“ segir Davíð Karl, „allar götur síðan hann hvarf hefur fjölskyldan verið í tilfinningarússíbana. Hvar sem hann er niður kominn verður hann ávallt kletturinn í fjölskyldunni,“ segir bróðirinn enn fremur en þau systkinin hafa ítrekað lýst því yfir að Jón Þröstur hefði aldrei látið sig hverfa – það væri einfaldlega útilokað miðað við hans persónu.

Kveður Davíð Karl fjölskylduna bjartsýna og hún voni innilega að eitthvað jákvætt komi út úr þessari heimsókn þeirra systkina til Dublin.

Lögregla vill heyra frá sendendum vísbendinga

Darren McCarthy yfirlögregluþjónn sagði í fréttum RTÉ í kvöld að lögreglan óskaði eftir að sendandi eða sendendur tveggja nafnlausra vísbendinga gæfu sig fram við lögreglu en lögreglan hefði fylgt rúmlega 270 vísbendingum eftir auk þess að taka skýrslur af fjölda fólks og liggja yfir klukkustundum af myndefni öryggismyndavéla í borginni.

Hvatti McCarthy viðkomandi til að gefa sig fram og ræða við lögreglu sem gæta myndi trúnaðar í hvítvetna.

Spurður hvort lögreglu gruni að hvarf Jóns Þrastar tengist saknæmri háttsemi af einhverju tagi sagði McCarthy í fréttinni í kvöld að málið væri enn rannsakað sem mannshvarf og lögregla fylgdi sínum verklagsreglum þar að lútandi.

Anna Hildur, systir Jóns Þrastar, sagði við RTÉ að vitaskuld ætti fjölskyldan sér enga ósk heitari en þá að hann væri á lífi. Hún hefði þó sínar efasemdir um það. „Ég vil bara finna hann, vita hvað gerðist svo við getum kvatt hann vegna þess að það er svo erfitt að kveðja einhvern sem er ekki farinn fyrir fullt og allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert