Óttast tilraunir til að ná fólki undir sína stjórn

Saga Kjartansdóttir hjá ASÍ segir reynt að hafa áhrif á …
Saga Kjartansdóttir hjá ASÍ segir reynt að hafa áhrif á meint fórnarlömb mansals. Samsett/Eggert Jóhennesson/Aðsend

Saga Kjartansdóttir, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ, segir eftirlitið hafa miklar áhyggjur af því að fórnarlömb meints mansals í máli Quang Le einnig nefndur Davíð Viðarsson sæti tilraunum geranda til að ná fólki aftur undir sína stjórn.

Eftirlitið hefur vitneskju um að haft hafi verið samband við meint fórnarlömb en hins vegar hefur eftirlitið ekki getað staðfest beinar hótanir í garð fórnarlamba. Heimildarmaður mbl.is fullyrðir þó að fyrrum starfsfólk sæti hótunum. 

Þrisvar fundað með fórnarlömbum 

Þrír fundir hafa verið haldnir með meintum fórnarlömbum í málinu til að halda þeim upplýstum og koma réttum upplýsingum á framfæri. Lögregla, Bjarkarhlíð, Verkalýðshreyfingin, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun hafa haldið fundina sem hafa verið vel sóttir að sögn Sögu. 

„Við erum alltaf dauðfegin þegar við sjáum þau mæta. Því eðli þessara mála er þannig að gerendur reyna yfirleitt að ná fólki undir sína stjórn,“ segir Saga. Hún segir að hver þeirra stofnana sem staðið hafi að fundinum komi viðeigandi upplýsingum til fólks. 

Ógnað með brottvikningu úr landi 

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur fórnarlömbum og öðrum fyrrum starfsmönnum af víetnömskum uppruna verið hótað á þann veg að það eigi að viðhalda þagmælsku öðrum kosti muni það missa landvistarleyfi. Þannig að landvistarleyfið hangi á því að fjórmenningarnir sem nú eru í haldi lögreglu fái ekki dóm í málinu.  

Lögregla tók hins vegar fjölda viðtala strax eftir lögregluaðgerðir fyrr í mánuðnum og telur sig hafa ágætar upplýsingar frá meintum fórnarlömbum í málinu. 

„Sumt fólkið er ennþá hrætt á meðan aðrir eru bara tilbúnir að halda áfram með lífið. En það er alveg eftir bókinni reynt sé að hafa í hótunum við fólk,“ segir Saga.

Reynt að hafa áhrif á fórnarlömbin 

Hún áréttar þó að ASÍ hafi engar upplýsingar um beinar hótanir. Aftur á móti hafi röngum skilaboðum verið komið til meintra fórnarlamba í málinu af hendi aðila sem tengdur er málinu. 

„Við höfum vitneskju um að það hafi verið reynt að hafa áhrif á fórnarlömbin með röngum upplýsingum. Við vitum ekki um hótanir með fullvissu en það kæmi okkur ekki á óvart að fólk sæti þeim,“ segir Saga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert