Enginn lýst yfir ábyrgð á skemmdarverkinu

Útlaginn hreinsaður eftir skemmdarverk
Útlaginn hreinsaður eftir skemmdarverk mbl.is/Árni Sæberg

Unnið er nú að þrifum á lista­verk­inu Útlag­ar eft­ir Ein­ar Jóns­son sem stend­ur við Hóla­valla­kirkju­g­arð í Reykja­vík eftir að skemmd­ar­verk var unnið á lista­verk­inu í gær.

Svo virðist sem ein­hver hafi málað eða spreyjað stytt­una gyllta, en óvíst er ná­kvæm­lega hvenær það var gert.

Blaðamaður mbl.is náði tali af Sigurði Trausta Traustasyni, deildarstjóra saf­neign­ar og rann­sókna hjá Lista­safni Reykja­vík­ur, í morgun. Þá var hann á leiðinni að skoða verkið og taka út skemmdirnar. 

Flókið og tímafrekt

Hann segir að framundan sé þó nokkuð verk. Að ná gyllingunni af styttunni sé bæði flókið og tímafrekt. 

„Að mestu náum við þessu af með alkahóli og vatni til að byrja með, en síðan munum við þurfa að vinna með styttuna eftir að við náum þessu af,“ segir Sigurður.

Þá útskýrir hann að ákveðin patín-húðun sé á styttum sem þessum. Hún er unnin með ákveðnum efnum og vaxi til að verja stytturnar fyrir veðri og vindum.

Sigurður býst við að þessi húðun muni fara af við þrifin, ásamt málningunni, og því muni þurfa að vaxa verkið upp á nýtt. 

„Þær eru nokkur viðkvæmar, viðkvæmari en maður heldur, þessar bronsstyttur.“

Gert er ráð fyrir að hreinsunin muni taka nokkurn tíma.
Gert er ráð fyrir að hreinsunin muni taka nokkurn tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Svipaðar skemmdir unnar á Brautryðjandanum

Varðandi verknaðinn sjálfan segir Sigurður að ekki sé komið í ljós hver stóð að skemmdarverkinu. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð. 

Fyrir nokkrum árum var unnið sambærilegt skemmdarverk á lágmyndinni Brautryðjandanum eftir Einar Jónsson sem er minnisvarði um Jón Sigurðsson á Austurvelli.

Spurður hvort hann gruni að um sama einstakling sé að ræða segist Sigurður ekki geta sagt til um það, en bætir þó við að skemmdarverkin séu svipuð. Hann kannast einungis við að slík gyllt húðun hafi verið notuð við gerð þessara tveggja verka. 

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á skemmdarverkinu sem unnið var á Brautryðjandanum og enn í dag er ekki vitað hver var þar að baki. 

Að lokum segir Sigurður að sem betur fer sé mjög lítið um skemmdarverk á listaverkum í borginni, þetta er því undantekning.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert