Framboðslisti Viðreisnar í Reykjavík samþykktur

Frambjóðendur Viðreisnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.
Frambjóðendur Viðreisnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Framboðslisti Viðreisnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjavík var staðfestur í dag á fjölmennum félagsfundi Reykjavíkurráðs Viðreisnar. Sæti í ráðinu eiga allir meðlimir Viðreisnar búsettir í Reykjavík.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Viðreisn.

1.200 atkvæði bárust og var kjörsókn 61%

Oddviti listans er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sigurvegari prófkjörsins og formaður borgarráðs. Í öðru sæti er Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi. Í þriðja sæti er Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri. Í fjórða sæti er Geir Finnsson, framhaldsskólakennari og forseti Landssambands Ungmennafélaga.

Valið var í efstu sæti listans í prófkjöri sem fór fram 4.-5. mars. Tæplega 1.200 atkvæði bárust og var kjörsókn 61%. Úrslit prófkjörs voru svo sendar uppstillinganefnd, sem stillti upp lista Viðreisnar í Reykjavík í samræmi við reglur flokksins.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti listans.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti listans.

Listinn sýni breidd Viðreisnar í Reykjavík

„Þetta er öflugur listi sem sýnir breidd Viðreisnar í Reykjavík. Við erum búsett í öllum hverfum borgarinnar og með fjölbreytta reynslu. Við höfum því skarpa sýn á þarfir Reykvíkinga og munum halda áfram að beita okkur fyrir því að einfalda lífið í borginni og efla öll hverfi til að þar megi finna aukna þjónustu og atvinnulíf,“ er haft eftir Þórdísi Lóu, oddvita listans, í tilkynningunni.

Meðalaldur frambjóðenda er 39,5 ár. Yngsti frambjóðandinn verður 18 ára mánuði fyrir kosningar. Elsti frambjóðandinn er 80 ára. Búseta frambjóðenda er um alla borg en flestir frambjóðendur búa í Breiðholti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert