Bandaríska geimferðastofnunin NASA tilkynnti í dag áætlanir um að prufa kjarnorkuknúnar eldflaugar sem geti flogið með geimfara til Mars á ofurhröðum tíma.
NASA mun vera í samstarfi við rannsóknarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins (DARPA) og mun verkefnið kallast DRACO.
Í fréttatilkynningu NASA segir að áætlað er að fyrstu kjarnorkuknúnu eldflauginni verði skotið upp í geim árið 2027.
„Með hjálp þessarar nýju tækni gætu geimfarar ferðast til og frá geimnum hraðar en nokkru sinni fyrr,“ er haft eftir Bill Nelson, forstjóra NASA.
Þá segir hann að tæknin muni leiða til þess að hægt verði að senda geimfara til Mars á öruggari hátt þar sem ferðin muni ekki taka eins langan tíma. Lengri ferðir þýði meira magn af vistum.
Í tilkynningunni segir að meira en 50 ár séu síðan Bandaríkjamenn prufuðu kjarnorkuknúnar eldflaugar. Þær prófanir munu meðal annars nýtast til DRACO-verkefnisins.
Nú þegar vinnur NASA að Artemis I-verkefninu sem hefur það markmið að flytja fólk á nýjan leik til tunglsins og seinna meir til plánetunnar Mars. Nú þegar hefur NASA fjárfest fyrir milljarða bandaríkjadala í verkefninu.