Guðrún Bergmann - haus
20. desember 2021

Fyrirgefningin veitir frelsi

Fyrir mörgum árum síðan gáfum við, ég og maðurinn minn heitinn, út bókina FYRIRGEFNINGIN er heimsins fremsti heilari eftir Gerald G. Jampolsky. Bókin er löngu uppseld, en fyrirgefningin gengur aldrei úr gildi.

Í kringum jól rifjast oft upp hjá fólki gamlar og erfiðar minningar tengdar jólahaldi úr æsku. Margir eru enn að láta þessar minningar skemma fyrir sér ánægjuna í kringum þessa hátíð LJÓSSINS og finna því ekki til gleði og ánægju á þessum árstíma.

canstockphoto25691655

SLEPPUM TÖKUM

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að fyrirgefning þýðir ekki að við höfum haft rangt fyrir okkur eða ekki verið særð og að aðilinn sem gerði eitthvað á okkar hluti hafi haft rétt fyrir sér.

Hún felst einungis í því að skilja að með því að fyrirgefa, sleppum við tökum á gömlum minningum og hættum að halda í og rifja reglulega upp þau særindi, sem við urðum fyrir á sínum tíma.

Við erum á leið inn í hækkandi tíðni kærleikans og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að láta hið gamla vera liðið og uppgert.

TÖKUM VÖLDIN Í EIGIN LÍFI

Í bókinni A Course In Miracels eftir Helen Schucman, sem kom út árið 1976, kemur fram að stærsta „kraftaverkið“ felist í því að vera að fullu „meðvitaður um kærleikann“ í eigin lífi. 

Þar er líka fjallað um fyrirgefninguna og hvað felst í því að gera sér grein fyrir eftirfarandi þáttum og breyta skilningi okkar á þeim: 

  • Aðilinn sem gerði eitthvað á okkar hlut hefur aldrei haft vald yfir hamingju okkar
  • Við gáfum honum það vald – með því að viðhalda minningunni
  • Að reynsla okkar (og þjáning) á uppruna sinn í okkur sjálfum
  • Að við losum þann sem gerði eitthvað á okkar hlut undan þeirri sannfæringu að hann geti enn stjórnað lífi okkar á einhvern hátt
  • Þegar við fyrirgefum veitum við okkur sjálfum frelsi

Með því að losa okkur við minningar, sem oft sitja djúpt í undirvitundinni og fyrirgefa breytist viðhorf okkar til lífsins.

Þegar við losum okkur við sársaukafullar tilfinningalegar minningar tökum við á ný völdin í eigin lífi og hættum að vera fórnarlömb.

ERTU ENN AÐ HIKA?

Ef þú ert enn að hika við að fyrirgefa, þá er gott að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

  • Hverju tapa ég á því að fyrirgefa?
  • Hvað græði ég á því að fyrirgefa?

Svörin við þessum spurningum vekja okkur yfirleitt til vitundar um þann ávinning sem fyrirgefningin felur í sér.

Ef þér finnst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

www.gudrunbergmann.is 
Mynd: CanStockPhoto / GDArts