|
|
|
|
|
Halldór Laxness hefur í verkum sínum skapað margar eftirminnilegar persónur:
Hvenær drepur maður mann?
Í skáldsögum Halldórs Laxness birtast ýmsar persónur sem hafa búið um sig í þjóðarvitundinni. Engu er líkara en þar sé á ferð fólk af holdi og blóði sem hafi verið til, sé til og muni lifa góðu lífi um ókomin ár. Menn vitna í þær eins og nákominn ættingja, ekki síst tilsvörin sem mörg hver eru meitluð og standa nánast eins og orðskviðir.
Vont er þeirra réttlæti...
Jón Hreggviðsson úr Íslandsklukkunni er ein frægasta persóna Halldórs, maðurinn sem hljóp yfir það mjúka Holland til að bjarga höfði sínu. Tilsvör hans einkennast oftar en ekki af kaldhæðni. Í dýflissunni á Bessastöðum hitti Jón nafna sinn Þeófílusson sem reynt hafði að galdra til sín stúlku. Hann þráði það eitt að vera höggvinn. Jóni Hreggviðssyni fannst aumingjaskapur og volæði nafna síns vera slíkt að hann gæti ekki gert sér svo háleita drauma: „Þú verður áreiðanlega brendur.“ Jón varð leiksoppur dómskerfisins á sinni tíð og var ýmist dæmdur eða sýknaður. Eftir langa mæðu varð honum loks að orði: „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.“ Jóni varð það á að stela snærisspotta og var upp úr því sakaður um morð á böðli sínum. Þegar yfirvaldið kom til hans á Rein til að sækja hann og vildi að auki fá byssu hans hafði kona hans ekki fyrir því að verja bónda sinn: „Já það er undarlegt hann skuli ekki vera búinn að margdrepa okkur öll með þessari byssu“. En drap Jón Hreggviðsson böðulinn? Sjálfur svaraði hann Arnasi Arnæusi úti í Kaupmannahöfn svo: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó.“
Ísland ekki selt
Arnas Arnæus, bókamaðurinn sem reyndi að bjarga fornritum Íslendinga, er önnur fræg persóna úr Íslandsklukkunni. Honum var boðið að gerast landstjóri Þjóðverja á Íslandi þegar þeim stóð til boða að kaupa Ísland. Eftir nokkra umhugsun svarar hann hinum þýsku svo: „Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.
Ef varnarlaus þjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita. Ég veit þið hamborgarmenn munduð færa oss íslenskum maðklaust korn og ekki telja ómaksvert að svíkja á oss mál og vog. En þegar á Íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“ Hann sendir síðan Jón Hreggviðsson heim til Íslands með eftirfarandi kveðju: „Þú getur sagt þeim frá mér að Ísland hafi ekki verið selt; ekki í þetta sinn. Þeir skilja það seinna.“
Kvenkyn og mannkyn
Bjartur í Sumarhúsum, aðalsöguhetjan í Sjálfstæðu fólki, er sauðþrjóskur, heimaalinn íslenskur einyrki. Þó er þetta líklega sú skáldsaga Laxness sem mest hefur verið lesin og víðast farið. Það skýrist líklega af því að í raun er þetta saga um manneskjuna sjálfa, – Bjart í Sumarhúsum er hvarvetna að finna, hvort sem er í innsveitum austanlands eða í New York. Sagan hefst á því að Bjartur fylgir konu sinni, Rósu, í afdalakotið Sumarhús og henni lýkur á því að hann hefur missti kotið. Á leiðinni þangað reiddi Rósu á Blesa sínum: „þá kastaðist konan af baki og lá í keldunni, í vatni og leir. Bjartur reisti hana á fætur og þurkaði af henni leirinn með snýtuklútnum sínum, kvenkynið er nú einusinni aumara en mannkynið, sagði hann.“ Í lok sögunnar hefur Bjartur tapað aleigu sinni en samt stendur hann uppi sem sigurvegari. Hann afneitar samfélaginu í upphafi sögunnar en hefur í lokin öðlast ákveðna samkennd með öðru fólki sem birtist m.a. í sáttum við Ástu Sóllilju. Hann heldur inn á heiðina með hana og Hallberu gömlu og þar segir í sögunni: „Þau voru líkust flóttamönnum í herjuðu landi þar sem geisað hafa lángvinn stríð, griðlausir útilegumenn – í landi hverra? Að minsta kosti ekki í sínu landi. Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.“
Fegurðin ein
Ólafur Kárason Ljósvíkingur er aðalpersóna Heimsljóss. Hann er skáldið sem þráir að þjóna fegurðinni einni en ranglætið í kringum hann kemur í veg fyrir að hann geti það því að: „það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt.“ Heimsljós er mikið verk, í því er bæði mikil ádeila á þjóðfélagið og hvernig hinum veraldlega auði er skipt á milli manna. Þar eru líka ljóðrænir kaflar og segja ýmsir að þar sé að finna einhverja fegurstu málsgrein íslenskra bókmennta en hún er svona: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir loftið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ Yfir Ólafi Kárasyni gnæfir jökullinn, tákn hinnar eilífu fegurðar, og þangað hverfur hann að lokum. Bera, stúlkan sem hann elskaði, bað hann að hugsa um sig þegar hann væri í miklu sólskini. Að henni látinni stefnir skáldið í sögulok inn í þetta sólskin á tunglskinsbjartri nóttu. Inn á jökulinn, inn í sól upprisunnar liggur leið hans, gegnum dauðann til að hverfa inn í hið eilífa ljós. Þar ríkir fegurðin ein: „Það var kyrt veður með túngli í hásuðri og kaldri bláleitri birtu. Hann stefndi beint til fjals. Neðra voru lángir brattar, efra tóku við atlíðandi mosaflesjur, síðan urðir, loks óslitin fönn. Mynd túnglsins dofnaði þegar birti. Yfir hafinu var svartur veðramökkur í aðsigi. hann heldur áfram inná jökulinn, á vit aftureldíngarinnar, búngu af búngu, í djúpum nýföllnum snjó, án þess að gefa þeim veðrum gaum, sem kunna að elta hann. Barn hafði hann staðið í fjörunni í Ljósuvík og horft á landölduna sogast að og frá, en nú stefndi hann burt frá sjónum. Hugsaðu um þig þegar þú ert í miklu sólskini. Bráðum skín sól upprisudagsis yfir hinar björtu leiðir þar sem hún bíður skálds síns.
Og fegurðin ein mun ríkja.“
Kríngilfættur kappi
Halldór réðst í það stórvirki að skrifa „Íslendingasögu“ á sjötta áratugnum. Útkoman varð Gerpla sem framan af er háðsádeila sem stefnt er gegn hetju- og ofbeldisdýrkun Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðs Kolbrúnarskálds. Þegar háðinu sleppir tekur harmleikurinn við. Halldór gerir stólpagrín að görpum fornaldar eins og sést ágætlega í lýsingunni á Þorgeiri: „Þorgeir Hávarsson var maður eigi hár til knés og nokkuð kríngilfættur svo sem flestir samlandar hans, bláeygur, roðamikill á hörund, skolhár, tenn sléttar og vaxnar mjög á ofan tannholdi rauðu, og dró niður munnvikin við mönnum og þrumdi gneypur á gamanþíngum, en brosti því aðeins að honum væri víg í hug ellegar nokkurt annað stórvirki.“ Þetta er nokkuð önnur hetjumynd en birtist í Íslendingasögunum! Slíkir kappar biðja sér auðvitað ekki hjálpar, – jafnvel þótt líf liggi við. Þorgeir og Þormóður fara í Hornbjarg að tína hvannir. Þar missir Þorgeir fóta og hrapar en nær taki á hvönn. Veit fóstbróðir hans ekki af þessu en leggur sig og sefur lengi dags. Þegar hann vaknar undrast hann um Þorgeir og fer að hrópa og kalla svo fuglar fljúga upp. Heyrist þá í Þorgeiri: „Láttu af að styggja fogla með ópum þínum.“ Þormóður spyr þá hvort hann hafi tínt mikið af hvönn og svarar kappinn: „Eg ætla að eg hafi nógar, að þessi er uppi er eg held um.“ Ekki þakkaði hann fóstbróður sínum lífgjöfina og segir raunar í sögunni að heldur hafi gerst færra með þeim frá þessari stundu.
Hinn hreini tónn
Ekki verður skilist við frægar persónur Halldórs án þess að nefna „stórsöngvarann“ Garðar Hólm í Brekkukotsannál. Hann er orðinn nokkurskonar tákn „heimsfrægra“ Íslendinga, þeirra sem að sögn hafa getið sér gott orð erlendis en þegar á hólminn er komið reynast fáir kannast við viðkomandi og hæfileikarnir kannski óvísir líka. Oft og iðulega er blásið til söngskemmtana í bænum en þegar til á að taka er Garðar Hólm horfinn af vettvangi, yfirleitt til útlanda brýnna erinda. Hann þiggur fé af Gúðmúnsen kaupmanni og kemst áður en lýkur að niðurstöðu: „Sá maður sem er einhvers virði eignast aldrei gimstein.“ Hann finnur heldur ekki hinn hreina tón: „Ef ég næ ekki hreinum tón þá kæri ég mig ekkert um að vera frægur“, segir Álfgrímur sem heldur út á sömu braut og Garðar Hólm en með annað vegarnesti. Hann hefur í farteskinu arf ömmu sinar og afa, heim einfaldleika og sannleika, – ólíkt því sem Garðar lagði upp með.
Góður maður og hlægilegur
Þannig mætti halda lengi áfram, gleyma sér í persónusafni Nóbelsskáldsins og rifja upp kynni sín við þær. Enn eru eftir Salka Valka sem vildi ganga í buxum; Snæfríður Íslandssól sem sagði að konu sem þekkt hefði ágætan mann þætti góður maður hlægilegur; Ugla sem kom í bæinn til að læra á orgel; Organistinn sem sagði að lauslátar konur væru ekki til heldur bæði kvenmenn sem svæfu þrjátíu sinnum hjá einum karlmanni og kvenmenn sem svæfu einu sinni hjá þrjátíu karlmönnum; Jón prímus úr Kristnihaldinu sem þótti leiðinlegt að mennirnir blístruðu ekki hver á annan eins og fuglarnir og þannig mætti lengi áfram telja. Þessar persónur eru orðnar hluti af íslenskum veruleika, þær eru eins og afar okkar og ömmur, feður okkar og mæður, bræður okkar og systur, – en þó einstakar.
|
|
© Morgunblaðið 1998. |
|
|