„Við viljum ekki að fólk upplifi hungur“

Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar.
Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Samhjálp gefur fólki í neyð að borða í gegnum starf sitt eða 100.000 máltíðir á ári. Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar segir að þeim sé alltaf að fjölga sem þurfi á aðstoð að halda. Í kvöld verður kótilettukvöld Samhjálpar haldið í 16 skipti en það er stór liður í fjármögnum félagsins. 

„Fyrsta kótilettukvöld Samhjálpar var haldið árið 2006 og hefur verið árlegur viðburður síðan, ef frá eru talin árin sem samkomutakmarkanir stjórnuðu lífi okkar. Mér telst því til að þetta sé í sextánda skipti sem kótilettukvöld Samhjálpar er haldið. Í ár er kótilettukvöldið með sérstökum hátíðarbrag þar sem Samhjálp á 50 ára afmæli. Það verður því afmæliskaka og afmælissöngurinn sunginn undir stjórn Grétu Salóme. Þetta verður hátíðlegt en líka skemmtilegt kvöld.

Hápunkturinn eru þó alltaf sögur fólks sem hefur fengið bata í gegnum starfsemi Samhjálpar. Sögurnar í ár spanna rúmlega fimmtíu ára edrútíma en þau sem deila reynslu sinni hafa samtals verið edrú í þennan tíma, svo það er samhljómur við 50 ára afmæli Samhjálpar.  

Við erum svo heppin að geta haldið viðburðinn á Hilton hotel Nordica, en þau eru samstarfsaðilar okkar í ár og gera okkur kleift að halda viðburðinn á þessum glæsilega stað. Kokkalandsliðið eldar kótiletturnar svo þetta verður upp á 10. Það er mikil eftirvænting hjá okkur enda alveg að verða uppselt. Við verðum þó með einhverja miða við innganginn því sagan segir okkur að það er alltaf smá hópur sem mætir á staðinn án þess að vera búinn að kaupa miða,“ segir Edda. 

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Náungakærleikur í verki 

Kótilettukvöld Samhjálpar er meðal mikilvægustu fjáröflunarleiða Samhjálpar en þó ekki sú stærsta. 

„Þetta er mikilvægt kvöld vegna þess að við fáum að verja því með stórum hópi fólks sem hefur einlægan áhuga á starfseminni og lætur sig málefnið varða. Staðreyndin er sú að við erum í fjáröflun alla daga ársins. Við fáum matargjafir næstum daglega frá fyrirtækjum til kaffistofunnar, ásamt því sem fjöldi einstaklinga og fyrirtækja leggur sitt af mörkum með því að styrkja okkur fjárhagslega. Um fjörtíu prósent af kostnaðinum við rekstur Samhjálpar er fjármagnaður með sjálfshjálparfé. Við gætum þetta aldrei nema vegna þess að fólkið í landinu er okkur sammála um að Samhjálp er samfélagsverkefni. Við viljum ekki að fólk upplifi hungur. Við viljum að þeir sem búa á götunni eða þurfa hjálp um lengri eða skemmri tíma, eigi samastað. Það er svo magnað að upplifa að fólk sýnir náungakærleika í verki með því að gefa okkur gjafir og styrkja okkur fjárhagslega. Við erum óendanlega þakklát fyrir það,“ segir hún. 

Í tilefni af 50 ára afmæli Samhjálpar verður pop-up verslun í anddyrinu fyrir framan salinn.

„Þetta eru vörur sem safnað hefur verið á nytjamarkaði Samhjálpar. Þarna verða eigulegir hlutir af ýmsu tagi, bæði skartgripir og Kasmírpeysur ásamt handprjónuðum flíkum og silkislæðum frá heimsþekktum hönnuðum. Þetta verður því skemmtilegt tækifæri fyrir þá sem vilja styrkja gott málefni en gjarnan taka eitthvað með sér heim í poka.

Það verður líka hljótt uppboð á nokkrum völdum hlutum eins og listaverkum, hönnunarvöru og nýju skarti sem okkur hefur verið gefið. Nokkrir þekktir íslenskir hönnuðir hafa gefið okkur vöru til að hafa á þögla uppboðinu og okkur hafa einnig áskotnast grafíklistaverk og olíumálverk eftir þekkt listafólk, sem fólk getur boðið í. Hver hlutur hefur verið verðmetinn og er lægsta boð rétt yfir því verðmati en svo er það hæstbjóðandi sem hlýtur vöruna.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra voru á meðal gesta í fyrra. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Edda segir að starf Samhjálpar skipti máli því það sé staður vonarinnar. 

„Við trúum því að statt og stöðugt að það sé alltaf von. Sama hversu oft fólk hefur farið í meðferð eða komið á kaffistofuna. Það er alltaf von.

Við sýnum fólki virðingu og viljum að fólk upplifi að allir eiga skilið að þeim sé sýnd virðing. Við erum öll mikilvæg sem einstaklingar. Í því birtist ef til villl það sem kalla mætti fordómaleysi. Starfsemi Samhjálpar hefur alltaf byggst á því að mæta fólki þar sem það er og fordæma það ekki. Í því felst einnig kærleikur gagnvart náunganum. Þannig getur fólk upplifað þá valdeflingu sem það þarf til að geta sótt sér bata og nýja framtíð án fíkniefna og þeirra fjötra sem felast oft í fátækt.“

Þjóna 500 manneskjum á dag

Edda hefur verið framkvæmdastjóri Samhjálpar síðan vorið 2022. Afi hennar stofnaði samtökin fyrir 50 árum og því hefur hún fylgst með starfseminni síðan hún var barn. Þegar hún er spurð að því hvað hafi komið henni mest á óvart segir hún að það sé hvað stór hluti sé fjármagnaður með sjálfsaflafé. 

„Það hefur einnig komið mér skemmtilega á óvart hversu mikil góðvild er gagnvart starfseminni. Bæði einstaklingar og fyrirtæki eru mjög tilbúin að leggja sitt af mörkum og fólk er almennt sammála um að Samhjálp gegni mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Það er hughreystandi að upplifa það. Velvild samfélagsins og vonin um betra líf til handa þeim sem margir hafa gefist upp á, er það sem heldur mér gangandi á erfiðum dögum.“

Edda segir að Samhjálp þjóni 500 einstaklingum á hverjum degi. 

„Við rekum Hlaðgerðarkot, sem er meðferðarheimili í Mosfellsdal, þrjú áfangaheimili og kaffistofu Samhjálpar. Öll þessi úrræði eru opin alla daga ársins. Auk þess rekum við nytjamarkað og miðstöð fjáröflunar til að standa straum af þeim kostnaði sem er umfram það sem ríki og sveitarfélög láta af hendi rakna.“

Þessi mynd var tekin á kótilettukvöldi Samhjálpar í fyrra.
Þessi mynd var tekin á kótilettukvöldi Samhjálpar í fyrra. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Samhjálp er með þjónustusamninga við ríki og sveitarfélög um úrræði þeirra. 

„Hlutfall opinberra styrkja er um 60% á móti 40% sjálfsaflafé.“

Hvað myndi Samhjálp gera ef til væru meiri peningar?

„Mig langar að byggja nýja kaffistofu sem mætir þörfum þeirra sem þangað leita. Mig langar að búa til fallega umgjörð utan um það einstaka samfélag sem kaffistofan er. Þangað leitar fólk í neyð sinni en þar er líka stórkostlegt dæmi um fjölbreytt og friðsamlegt samfélag. Fólk sem er án heimilis, fólk sem glímir við fíknivanda, fólk sem glímir við fátækt af mismunandi ástæðum – kemur á kaffistofuna og á samfélag yfir kaffibolla, meðlæti, rjúkandi súpudiski eða hádegisverði. Þetta er friðsamlegt samfélag sem er líka rekið með einstökum hætti því það er aðeins lítið en öflugt teymi starfsfólks, en helmingi fleiri sjálfboðaliðar og töluverður fjöldi fólks sem sinnir samfélagsþjónustu. Þetta gæti aldrei gengið nema fyrir samstillt átak þessa hóps og þær gjafir sem við fáum.

Mig langar að hópurinn sem til okkar leitar geti notið þess að hittast í fallegu og hvetjandi umhverfi. Einnig langar mig að við getum þróað tækifæri fyrir enn fleiri til þátttöku í þessu einstaka samfélagi. Til dæmis með ræktun matjurta en það hefur sýnt sig að ræktun er mjög gefandi athöfn. Rannsóknir hafa sýnt að það að sjá sprotana stinga sér upp úr moldinni getur hreinlega hjálpað fólki að vinna úr áföllum. Þeir sem ekki eiga heimili eða hafa ekki aðstöðu til að rækta eigin garð, ættu að geta tekið þátt í ræktun með þessum hætti. Það er draumur sem ég trúi að verði að veruleika. Andleg næring jafnt sem líkamlegt – því bæði skiptir mjög miklu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál