„Hvenær ertu sátt við að verða ellikerling?“

Þórdísi Kjartansdóttur lýtalækni leið eins og hún væri komin heim …
Þórdísi Kjartansdóttur lýtalækni leið eins og hún væri komin heim þegar hún kom inn á skurðstofu í fyrsta skipti. mbl.is/María Matthíasdóttir

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica segir að fegrunaraðgerðir séu mun minna feimnismál í dag en þær voru árið 2006 en þá var hún nýflutt til Íslands eftir að hafa stundað nám erlendis. Hún segir að íslenskar konu séu mun sjálfstæðari en frönsku kynsystur sínar. Þær mæti helst ekki í viðtal hjá lýtalækni nema vera með maka sinn með á meðan íslenskar konur spyrja hvorki kóng né prest ef þær vilja stærri brjóst eða unglegra andlit. 

Þórdís lærði lýtalækningar í Strasbourg í Frakklandi en henni leið eins og hún væri komin heim þegar hún kom inn á skurðstofu í fyrsta skipti. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á handavinnu og vinnan á skurðstofunni sé kannski ekki ósvipuð.

„Það kom mér svolítið á óvart hvað þetta voru langir dagar,“ segir Þórdís þegar hún rifjar upp lýtalæknanámið í Frakklandi og segir að þar sé skorið upp fimm daga vikunnar.

Krafðist mikillar skipulagningar

„Það þýddi að ég þurfti að vera komin upp úr sjö á spítalann og komin heim hálfátta um kvöldið. Þetta þjálfar mann í höndunum og maður varð sjálfstæðari á skurðstofunni. Þetta krafðist mikillar skipulagningar fyrir heimilið og strákana,“ segir Þórdís en synir hennar tveir voru litlir þegar hún og fyrri eiginmaður hennar fluttu út svo hún gæti farið í nám.

„Þeir eru yndislega vel heppnaðir en það er líka pabba þeirra að þakka. Þann tíma sem ég var heima um helgar á kvöldin helgaði ég mig algerlega þeim. Ég vona að þeir hafi ekki slæmar minningar um að mamma hafi alltaf verið í vinnunni,“ segir Þórdís.

Eftir að fjölskyldan flutti heim til Íslands skildi leiðir og Þórdís fann ástina á ný og eignaðist dóttur. Þá var hún orðin 48 ára. Hún segir það hafa komið á óvart hvað það hafi gefið sér mikið og verið minna mál en hún hélt. Það að eiga 11 ára gamla dóttur hefur þó breytt lífstaktinum og segir Þórdís að hún sé með mun verri forgjöf í golfi – annað en vinir hennar sem eru á sama aldri.

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir var gestur í Dagmálum Morgunblaðsins.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir var gestur í Dagmálum Morgunblaðsins. mbl.is/María Matthíasdóttir

Konur og karlar hafa ólíkar skoðanir á brjóstum

Þórdís lærði mikið af tveimur kvenkyns lýtalæknum þegar hún var í námi í Frakklandi. Hún segir að þær hafi kennt sér margt en eitt af því sem þær lögðu ríka áherslu á var að hafa saumana sem penasta.

„Ég er svo þakklát fyrir þeirra sýn sem þær miðluðu mér. Þær hugsuðu mikið um þessar kvenlegu línur og hvar þú hefur skurðinn svo hann passi undir brjóstahaldarann,“ segir Þórdís.

Eru karlar og konur með ólíkar skoðanir á því hvað séu falleg brjóst?

„Það er alltaf erfitt að alhæfa. Konur vilja oft aðeins minni brjóst en karlar,“ segir Þórdís og segir það skipti máli að horfa á brjóstkassann áður en ákveðið er hvernig brjóstin eigi að vera og hvort konur vilji mikla eða litla brjóstaskoru.

Notar þú aðrar aðferðir þegar þú ert að minnka brjóst eða stækka brjóst en karlkyns kollegar þínir?

„Já, að einhverju leyti en ekki alltaf. Þær kenndu mér að skurðinn undir brjóstunum í brjóstaminnkun vill maður hafa stuttan því annars verður hann leiðinlegur næst bringubeininu. Ef hægt er reyni ég að hafa hann sem stystan. Þær kenndu mér aðferð sem hefur reynst mér vel en hún snýst um að móta brjóstin á borðinu þegar brjóstin eru minnkuð þannig að skurðurinn verði sem stystur,“ segir hún.

Miklu minna um brjóstastækkanir með stórum púðum

Talandi um brjóst. Þegar Þórdís er spurð hvort Pipp-púðamálið hafi haft áhrif á konur og ákvarðanir þeirra segir hún svo vera.

„Þetta hefur breyst talsvert og það er merkilegt að upplifa það. Það er búið að tengja brjóstapúða við sjúkdóma. Þetta getur kallað fram ofnæmisviðbrögð og sjálfsofnæmissjúkdóma þótt það sé gífurlega sjaldgæft. Konur í dag eru miklu betur upplýstar en þegar ég byrjaði. Þær fylgjast með og þær lesa. Sem er af hinu góða. Í dag myndi engin kona koma og segja við mig að hún vildi sirka C-stærð af púðum og myndi segja mér að redda þessu.

Þær vilja vita, eins og eðlilegt er, hvers konar púða þær eru að fá og hvaða áhætta fylgir því. Okkur ber skylda til að segja þeim að engin aðgerð sé áhættulaus. Þróunin er að svona „primer“ brjóstastækkanir, þegar kona ákveður að fá sér púða til að stækka brjóstin, eru sjaldgæfari í dag en þegar ég byrjaði. Ég flutti heim frá Frakklandi í lok árs 2006.

Auðvitað eru púðar alltaf notaðir og í notkun en það er ekki eins algengt. Í dag er kannski íslenska konan að láta taka púðana, lyfta brjóstunum og hugsanlega setja sína eigin fitu í brjóstin,“ segir Þórdís.

Þórdís segir að sá tími komi þar sem fólk getur …
Þórdís segir að sá tími komi þar sem fólk getur ekki verið að elta ellikerlingu með fylliefnum. mbl.is/María Matthíasdóttir

Fyllir brjóst með fitu

Hún segir færast í vöxt að fita sé tekin af öðrum líkamspörtum, sett í skilvindu og hreinsuð og henni komið fyrir í brjóstunum. Þórdís segir að það sé yfirleitt fallegra að lyfta brjóstunum í leiðinni svo þau verði ekki niðurdregin.

„Yfirleitt byrja ég á fitusoginu. Fitan fer í dauðhreinsað ílát, sem er lokað kerfi, hreinsuð, einangruð og komið fyrir í sprautum, kannski á meðan ég er að lyfta brjóstunum og taka púðana. Svo kem ég fitunni fyrir. Dreifi henni um brjóstvefinn.

Það er ekki þannig að maður geti sett ótakmarkað magn af fitu í brjóst. Þetta er flutningur á lifandi vef og vefurinn þarf að lifa flutninginn af. Fitan þarf að fá blóðfæði. Ef maður er of gráðugur og ætlar að setja of mikið þá deyja frumurnar. Maður þarf að passa vel upp á þetta og reyna að dreifa fitunni jafnt. Svo lifir ekki öll fitan af. Ef það eru bara 20% af fitunni sem eyðast upp þá er maður glaður,“ segir hún.

Fita í varir lifir ekki jafnlengi

Er þetta ekki alger bylting?

„Fitufylling hefur verið gerð síðan fyrir aldamótin 2000 en það er vissulega aukning í þessu. Við getum notað fituna í andlit, í hrukkur og undir ör. Það hefur sýnt sig í uppbyggðum brjóstum, sem er búið að geisla, að þá hefur fitan þau áhrif að gæðin aukast í yfirliggjandi húð. Fitufruman hjálpar til við að auka gæði vefja,“ segir Þórdís.

Þórdís sprautar ekki bara fitu af öðrum líkamshlutum fólks í brjóst heldur líka í andlit.

„Henni er til dæmis sprautað í kinnbein,“ segir Þórdís.

Er það fyrir fólk sem vill vera með meiri bollukinnar?

„Við þurfum ekki að fá meiri bollukinnar,“ segir Þórdís og hlær og á þá við hana sjálfa og blaðamann. Hún segist nota fitufyllingu þegar hún framkvæmir andlitslyftingu.

„Þá setur maður það aðeins í kringum munninn og í varir. Fita í varir lifir ekki jafnlengi og fylliefni í varir, en það er allt í lagi að nota fitu í varir ef maður er hvort sem er að nota hana í eitthvað. Eins og í bauga líka. Það gerir maður stundum,“ segir Þórdís.

Getur orðið þreytt

Er algengt á Íslandi að fólk fari í andlitslyftingu?

„Það er ekki algengasta aðgerðin sem ég geri. En vissulega kemur það fyrir,“ segir hún.

Notkun á fylliefnum og bótoxi hefur aukist mikið í heiminum í dag en hafa þau bara ákveðinn líftíma? Er bara hægt að nota þau í ákveðinn tíma?

„Það getur orðið svolítið þreytt. Sá tími kemur að maður getur ekki verið að elta ellikerlingu með fylliefnum. Þegar ómögulegheitasvipurinn er kominn hingað niður að kjálkalínu þá er ekki hægt að setja mikið af fylliefnum til þess að fylla upp í það. Þá þarf maður að fara í andlitslyftingu.“

Aldurinn misjafn

Hvað er fólk gamalt þegar það fer í andlitslyftingu?

„Það er ofsalega misjafnt. Úti í heimi eru konur að fara fyrr. Maður sér það á þingum. Svo segi ég stundum við skjólstæðinga mína: „Ef við ætlum að verða níræðar, hvenær ertu sátt við að verða ellikerling?“ Fólk getur helst ekki farið oftar en tvisvar í andlitslyftingu. Andlitslyfting dugar í sjö til tíu ár. Getur haldist lengur. Það fer eftir lifnaðarháttum og annað. Ef þú ætlar að fara 45 ára, ætlar þú þá að fara aftur þegar þú verður sextug? Það þarf aðeins að hugsa um framtíðina,“ segir Þórdís.

Þórdís segir að lýtaaðgerðir séu mun minna feimnismál í dag en þær voru hér áður fyrr.

Hvers vegna eru lýtaaðgerðir minna tabú í dag?

„Kannski er fólk almennt opnara með þetta. Mér finnst til dæmis algengt að fólk sem kemur í augnlokaaðgerð segi að það þurfi ekkert að fela það.“

Var það einu sinni feimnismál?

„Já, en núna finnst mér það ekki vera þannig. Fólk er jafnvel mætt í vinnu, þótt það sé í þjónustustörfum, með smá sólgleraugu og með fullt af plástrum í andlitinu. Þetta er minna feimnismál. Fólk kemur í bótox og fylliefni og fer beint í vinnuna eða á fund.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál