Hika ekki við að gera þetta aftur

Rúnar Már Sigurjónsson braut á Kylian Mbappé þegar Ísland og …
Rúnar Már Sigurjónsson braut á Kylian Mbappé þegar Ísland og Frakkland mættust í Guingamp í haust og var húðskammaður af mönnum á varamannabekk Frakka. Hann lætur sér fátt um finnast. AFP

„Þessi hópur og þetta lið hefur unnið ansi marga leiki þar sem að jákvæðustu menn bjuggust ekki við sigri,“ segir Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fyrir leikinn við Frakkland í París annað kvöld í undankeppni EM.

Eftir fagmannlegan 2:0-sigur í Andorra á föstudagskvöld er íslenska liðið nú mætt til Parísar til að eiga við sjálfa heimsmeistarana á morgun, liðið sem telja verður langsigurstranglegast í H-riðli undankeppni EM. Rúnar bindur þó vonir við að Ísland fari ekki án stiga frá Frakklandi. Hann kom við sögu þegar liðin gerðu 2:2-jafntefli í vináttulandsleik í október.

„Við höfum farið á erfiða útivelli á síðustu árum og unnið leiki, og stórlið á heimavelli líka. Fótbolti er þannig gerður að það getur allt gerst. Ég hlakka bara til,“ sagði Rúnar þegar hann ræddi við mbl.is í aðdraganda leikjanna við Andorra og Frakkland.

„Þegar við spilum á móti svona stórþjóðum þá erum við alltaf upp á okkar besta og allir klárir. Ég held að það geti bara allt gerst. Auðvitað var þetta æfingaleikur á móti þeim síðast en ég held að við pössum vel á móti Frökkunum – hvernig þeir spila og hvernig við spilum. Ég er bara mjög jákvæður gagnvart þessum leik,“ sagði Rúnar.

Rúnari tókst að gera Frakka afar illa þegar liðin mættust í október þegar hann braut á vonarstjörnu franska liðsins, sjálfum Kylian Mbappé, fyrir framan áhorfendabekk franska liðsins. Paul Pogba og félagar stukku æfir upp og kölluðu að honum, á meðan að Jóhann Berg Guðmundsson og fleiri af íslenska bekknum komu Rúnari til stuðnings.

„Ég hef alveg séð þetta. Þetta „poppar“ reglulega upp. Ég hef nú aldrei sagt neitt um þetta en ég fór nú ekki harkalega í hann. Það var aðallega tímasetningin, hvar þetta gerðist, á hvaða mínútu og hver þetta var, sem gerði þetta allt stærra. Fyrir mér var þetta bara taktískt brot, gult spjald og málið dautt. Ég myndi auðvitað ekki hika við að gera þetta aftur, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því,“ sagði Rúnar við mbl.is.

Didier Deschamps og fleiri létu Rúnar Má heyra það.
Didier Deschamps og fleiri létu Rúnar Má heyra það. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert