Tryggvi jafnaði fyrir Skagamenn í lokin

Úr fyrri viðureign ÍA og HK.
Úr fyrri viðureign ÍA og HK. Ljósmynd/Sigurður Elvar

HK og ÍA skildu jöfn, 1:1, í uppgjöri nýliðanna í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í Kórnum í dag. Arnþór Ari Atlason kom HK yfir en Tryggvi Hrafn Haraldsson jafnaði fyrir ÍA úr vítaspyrnu undir lokin.

HK og ÍA eru því áfram jöfn að stigum, nú með 27 stig í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar.

Eftir kröftugar upphafsmínútur Skagamanna voru HK-ingar meira með boltann í fyrri hálfleiknum sem var nokkuð líflegur þrátt fyrir markaleysið.

Emil Atlason komst í opið færi á vítateig ÍA eftir varnarmistök á 16. mínútu en skaut beint á Árna Snæ Ólafsson í Skagamarkinu sem var kominn framarlega í vítateiginn. Tveimur mínútum síðar varði Árni frá Alexander Frey Sindrasyni af markteig.

Arnþór Ari Atlason átti þrumuskot í stöng Skagamarksins á 20. mínútu eftir þunga sókn HK uppúr hornspyrnu Ásgeirs Marteinssonar.

Sex mínútum síðar small boltinn í stöng HK-marksins. Skagamenn áttu þá snögga sókn, Bjarki Steinn Bjarkason skaut af markteig en í HK-ing við línuna, í stöngina og síðan afturfyrir endamörkin.

Emil Atlason fékk síðan dauðafæri á 41. mínútu þegar hann skallaði hárfínt yfir Skagamarkið af markteig eftir fyrirgjöf Harðar Árnasonar frá vinstri. Hörður setti í dag leikjamet fyrir HK í efstu deild, spilaði sinn 40. leik fyrir félagið í deildinni og sló ellefu ára gamalt met Gunnleifs Gunnleifssonar.

Leikurinn var þar með markalaus þegar Egill Arnar Sigurþórsson dómari flautaði til hálfleiks en þá var hann búinn að sýna þremur Skagamönnum gula spjaldið, öllum fyrir að brjóta á hinum unga Valgeiri Valgeirssyni.

HK-ingar voru ágengir í byrjun síðari hálfleiks og Árni Snær varði mjög vel frá Birni Snæ Ingasyni á 52. mínútu.

HK náði forystunni á 56. mínútu. Birnir átti skot í varnarmann, boltinn hrökk út fyrir vítateiginn þar sem Arnþór Ari Atlason fékk hann, lagði fyrir sig boltann og skoraði með fallegu skoti alveg út við stöngina vinstra megin, 1:0.

Á 62. mínútu átti Ásgeir Marteinsson hörkuskot á mark ÍA eftir aukaspyrnu og Árni Snær varði vel í horn.

Tryggvi Hrafn Haraldsson kom inná hjá Skagamönnum á 63. mínútu og við það færðist meiri þungi í sóknarleik þeirra, án þess þó að það skilaði sér í opnum marktækifærum. Sindri Snær Magnússon fékk þó gott færi á 67. mínútu en skaut í varnarmann í vítateignum.

Birnir Snær var enn ágengur við Skagamarkið á 80. mínútu þegar hann átti fast skot hægra megin úr teignum í hliðarnetið.

Á 89. mínútu fengu Skagamenn vítaspyrnu þegar brotið var á Marcusi Johanssen eftir aukaspyrnu Tryggva Hrafns. Tryggvi fór á vítapunktinn og jafnaði metin af öryggi, 1:1.

Viktor Jónsson var nærri því að tryggja ÍA sigur í uppbótartímanum þegar hann skaut rétt framhjá marki HK af stuttu færi. Tryggvi Hrafn átti góða tilraun rétt á eftir en líka rétt framhjá.

HK 1:1 ÍA opna loka
90. mín. Skyndisókn ÍA og stórhættuleg fyrirgjöf Steinars frá hægri en boltinn fer framhjá öllum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert