Besti kafli Fylkis frá árinu 2013

Varnarmaðurinn Orri Sveinn Stefánsson úr Fylki og Guðmundur Steinn Hafsteinsson, …
Varnarmaðurinn Orri Sveinn Stefánsson úr Fylki og Guðmundur Steinn Hafsteinsson, framherji KA, skoruðu báðir í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Daði Ólafsson, sem gaf tóninn fyrir frábæran endasprett Fylkis gegn KA í Árbænum í gærkvöld með því að kom liði sínu í 2:1, sagði við mig eftir leikinn að hann vissi ekki hvað væri eiginlega orðið langt síðan Fylkir hefði unnið þrjá leiki í röð í deildinni.

Engin furða að Daði myndi ekki eftir því, enda gerðist það síðast hjá Fylki í efstu deild nokkrum vikum áður en hann spilaði sinn fyrsta leik með liðinu, síðsumars árið 2013. Þá vann Fylkir fjóra leiki í röð, eftir einn sigur í fyrstu tólf leikjunum.

Með sannfærandi 4:1 sigri á KA eru sigurleikirnir í deildinni orðnir þrír í röð eftir tvö töp í byrjun móts. Gott veganesti fyrir erfiðan kafla þar sem næstu mótherjar Árbæinga eru FH, KR og Valur. Þá sést betur hvort þeir muni gera alvöruatlögu að því að koma sér fyrir í efri hluta deildarinnar.

*Valdimar Þór Ingimundarson skoraði sitt fimmta mark í jafnmörgum leikjum í ár og lagði auk þess upp tvö önnur fyrir Fylki.

*Djair Parfitt-Williams, kantmaður frá Bermúda, skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar hann kom Fylki í 1:0 í fyrri hálfleik, eftir sendingu Valdimars.

*Andrés Már Jóhannesson, leikjahæsti leikmaður Fylkis í deildinni frá upphafi, kom inná undir lokin, í fyrsta sinn á tímabilinu. Hann er með 189 leiki fyrir liðið í deildinni.

*Byrjun KA-manna, tvö stig í fjórum leikjum, er versta byrjun félagsins á nokkru Íslandsmóti frá því liðið hóf titilvörnina 1990 á því að tapa fyrstu fjórum leikjum sínum.

Umfjöllunina um Íslandsmótið í knattspyrnu og M-gjöfina má sjá í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert