Birkir Már forðaði Val frá ósigri

Birkir Már Sævarsson jafnar metin gegn Breiðabliki á Hlíðarenda í …
Birkir Már Sævarsson jafnar metin gegn Breiðabliki á Hlíðarenda í gær. mbl.is/Íris

Birkir Már Sævarsson var enn og aftur í aðalhlutverki hjá Valsmönnum í gærkvöld en þá kom hann í veg fyrir að þeir töpuðu í fyrsta skipti síðan í fjórðu umferð Pepsi Max-deildar karla.

Birkir jafnaði metin fyrir Val gegn Breiðabliki, 1:1, á 90. mínútu í spennuleik liðanna á Hlíðarenda þar sem allt stefndi í að Blikar næðu að knýja fram sigur eftir að Róbert Orri Þorkelsson kom þeim yfir með sínu fyrsta marki í efstu deild. Birkir hefur nú skorað fjögur mörk í þremur síðustu leikjum Vals.

Þótt Valsmenn misstu þarna tvö stig að lokinni tíu leikja sigurhrinu er staða þeirra áfram afar vænleg á toppnum. Níu stiga forskot á FH-inga sem reyndar eiga leik til góða.

„Ef til vill hefur 4:1-sigurinn gegn FH í Kaplakrika kallað fram einhvers konar spennufall hjá Valsmönnum. Forskot liðsins í deildinni er orðið mjög myndarlegt og þá getur verið erfitt að halda einbeitingu. Valsmenn geta verið ánægðir með stigið úr því sem komið var. Jafntefli á heimavelli gegn öflugu liði Breiðabliks setur ekki mikið strik í reikninginn hjá meistaraefnunum,“ skrifaði Kristján Jónsson m.a. í grein um leikinn á mbl.is.

Hilmar bjargaði Stjörnunni

Hilmar Árni Halldórsson styrkti stöðu Stjörnunnar á ný í Evrópubaráttunni þegar hann skoraði sigurmarkið gegn HK í Kórnum, 3:2, í gærkvöld, rétt fyrir leikslok. Hilmar lagði einnig upp tvö fyrri mörk Garðabæjarliðsins sem komst í 2:0 í fyrri hálfleik.

„Svekkelsi HK-inga í leikslok var gríðarlegt, enda búnir að leggja mikið á sig til að jafna leikinn. Þeir geta hins vegar sjálfum sér um kennt því ef þú leyfir Hilmari Árna Halldórssyni að fá frítt skot rétt utan teigs, þá refsar hann oftar en ekki,“ skrifaði Jóhann Ingi Hafþórsson m.a. um leikinn á mbl.is.

Greinina í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert