Fyrrverandi hæstaréttardómari lætur KSÍ heyra það

Albert Guðmundsson fagnar þriðja marki sínu gegn Ísrael á fimmtudaginn.
Albert Guðmundsson fagnar þriðja marki sínu gegn Ísrael á fimmtudaginn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Fyrrverandi hæstaréttardómarinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, gagnrýndi forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, harðlega í pistli sem hann birti á samfélagsmiðlinum Facebook í gær.

Í pistlinum gagnrýndi hann meðferð sambandsins á leikmönnum sem hafa verið sakaðir um brot, án þess þó að hafa verið dæmdir.

Forkastanleg framkoma

Albert Guðmundsson snéri aftur í landsliðið gegn Ísrael á fimmtudaginn var í Búdapest eftir að leikmaðurinn var kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst á síðasta ári en héraðssaksóknari felldi niður málið á dögunum.

Alberti var því frjálst að taka þátt í leiknum gegn Ísrael en niðurfelling málsins hefur verið kærð til ríkissaksóknara.

Það er alveg forkastanleg framkoma Knattspyrnusambands Íslands við þá knattspyrnumenn sem hafa verið hafðir fyrir sökum um kynferðisbrot en þeir andmæla og ekki hafa verið sönnuð,“ segir Jón Steinar í pistli sínum.

Mjög íþyngjandi framkvæmd

Hvaðan kemur þessu sambandi heimild til að sakfella þá sem svona stendur á um? Þessi framkvæmd er auðvitað mjög íþyngjandi fyrir þá knattspyrnumenn sem hlut eiga að máli bæði gagnvart almenningi og stundum jafnvel í starfi sem atvinnumenn í knattspyrnu,“ segir Jón Steinar.

Ég segi bara við fyrirsvarsmenn KSÍ: Hættið þessari ósanngjörnu valdbeitingu. Þið farið ekki með guðlegt vald sem heimilar ykkur svona framferði. Munið að reglan um sakleysi þar til sekt er sönnuð gildir ekki bara við meðferð mála fyrir dómi.

Þetta er líka regla af siðferðilegum toga sem gildir í samskiptum borgaranna yfirleitt,“ segir Jón Steinar meðal annars en færslu hans má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert