Skagamenn skora enn mörkin

Oliver Stefánsson með boltann.
Oliver Stefánsson með boltann. mbl.is/Óttar Geirsson

Sannarlega má enn segja að Skagamenn skori enn mörkin því í dag unnu þeir Fylki 5:1 þegar liðin mættust í Akraneshöllinni í dag og leikið var í efstu deild karla í fótbolta.  Þeir eru vel að sigrinum komnir, ekki síst eftir að Árbæingar voru einum færri meirihlutann úr leiknum.

Sæmilegt jafnvægi var fyrstu mínúturnar þegar bæði lið reyndu að sprengja upp varnir mótherja og ef eitthvað er þá voru Árbæingar ákveðnari en vörn Skagamanna réði vel við það og kæfði sumar sóknir með því að ná sóknarmönnum Fylkis niður. 

Á 11. mínútu skoraði svo Hinrik Harðarson fyrir ÍA með þrumuskoti úr vítateignum vinstra megin niður í hægra hornið en hann hefði fengið næði rétt utan teigs til að undirbúa sig.  Staðan 1:0 fyrir ÍA.

Fylkismenn héldu sínu striki og áttu margar þungar sóknir með fyrirgjöfum en tókst ekki að ná færinu.

Hinu megin á 18. mínútu fékk síðan Viktor Jónsson gott færi þegar hann komst einn á móti markmanni Fylkis, Ólafi Kristófer, en sá kom vel út á móti og varði í horn.  Ekki alveg líkt Viktori.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var Fylkir meira í sókn, náði að spretta upp kantana og gefa fyrir en vörn ÍA hafði fært sig aftar, náði samt að koma í veg fyrir að Fylkismenn næðu opnum færum.  Það stóð þó oft tæpt, til dæmis fékk Matthias Præst gott færi á 35. mínútu þegar hann lyfti boltanum framhjá stöng ÍA og rétt á eftir náði Árni Marinó markmaður ÍA að verja þrumuskot Halldórs Jóns Sigurðar Þórðarsonar. 

Á 44. mínútu fékk Árbæingurinn Orri Sveinn Stefánsson rautt spjald þegar hann braut á sóknarmanni ÍA, sem var að sleppa í gegn.  Lítið hægt að gera í því. 

Skagamenn byrjuðu síðari hálfleikinn með látum, hlóðu í þungar sóknir og Viktor Jónsson skallaði boltann að marki Fylkis af stuttu færi en Ólafur í markinu varði glæsilega og rétt á eftir fór skallabolti Marko Vardic rétt yfir slánna.

Skagamenn voru sannarlega komnir í bragðið  og greinilegt að þeir vildu meira enda þunginn og hraðinn miklu meira en hjá Fylkismönnum, sem var brugðið. 

Það fór líka svo að Akurnesingar uppskáru á 51. mínútu þegar Johannes Björn Val sendi þvert fyrir markið frá hægri kanti á Steinar Þorsteinsson sem beið alveg tilbúinn við hægri stöngina og skaut beint niður í vinstra hornið. 

Þeir voru svo ekki hættir og á 53. mínútu skoraði Jón Gísli Eyland þriðja markið með þrumuskoti rétt kominn inn í vítateiginn hægra meginn og skotið beint niður í vinstra hornið. 

Fylkismenn hristu af sér slenið og hófu að sækja en hugurinn fylgdi ekki alveg með svo að fljótlega voru heimamenn farnir að sækja stíft.   Það skilaði sér á 67. mínútu þegar Viktor Jónsson skallaði boltann í markið af stuttu færi eftir horn frá hægri, staðan orðið 4:0 og Fylkir einum færri.

Albert Hafsteinsson innsiglaði svo 5:0 sigur ÍA á 76. mínútu með frábæru skoti vinstra megin úr teignum þar sem skotið endaði alveg út við hægri stöngina.

Fylkismenn voru ekki hættir og þegar Skagamenn voru komnir framarlega slapp Theodór Ingi Óskarsson í gegn, spretti upp vallarhelming Skagamanna og skoraði af öryggi undir markmann heimamanna.  Staðan 5:1.

Skagamenn fá hrós og stigin þrjú fyrir að spila af skynsemi, bakka vel þegar Fylkismenn ætluðu að komast í gegn og voru síðan snöggir fram völlinn þegar Árbæingarnir voru búnir að færa sig of framarlega.

Fylkismenn léku af fullum krafti en það var ekki nóg, þeir þurftu líka að finna leiðina að marki heimamanna sem vörðu vel.   Fengu á sig snöggar sóknir Skagamanna en réðu oftast vel við það.

ÍA 5:1 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið 90+2.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka