Franski ökumaðurinn Romain Grosjean hjá bandaríska liðinu Haas hrósaði liðsmönnum fyrir að honum skyldi takast að ná sjötta sæti í fyrsta móti nýja liðsins í Melbourne.
Grosjean hóf keppni í 19. sæti en hélt í við bíla í miðjum hópi framan af og tókst síðan að nýta stoppið vegna áreksturs til sinna einustu dekkjaskipta. Komst hann fljótlega eftir ræsinguna í hóp 10 fremstu bíla.
Keppnina út í gegn gætti hann þess að ganga ekki um of á dekkin, meðalmjúki, sem voru þau hörðustu í boði í Melbourne, og kláraði 39 hringi á þeim. Sjötta sætið er besti árangur nýs liðs í fyrsta móti í formúlu-1 frá því Toyota mætti til leiks á vertíðinni 2002.
„Mér líður eins og ég standi á efsta þrepi verðlaunapallsins fyrir okkar hönd,“ sagði Grosjean við lið sitt er hann kom í mark. „Við getum bætt okkur á mörgum sviðum og úrslitin eru gríðarleg hvatning og örva okkur til dáða.“