Franski ökumaðurinn Romain Grosjean hjá Haas er handhafi fyrsta verðlaunagripsins sem veittur er „manni dagsins“ í formúlu-1. Ók hann úr 19. sæti á rásmarki til sjötta sætis á endamarki í fyrsta kappakstri Haasliðsins í formúlu-1.
Tilkynnt var um úrslitin á hinu opinbera vefsetri formúlunnar, formula1.com, en aðdáendur íþróttarinnar tóku þátt í kjörinu og greiddu atkvæði á netinu.
Kom ekki fram hvernig atkvæðin féllu milli ökumanna og í þágu sanngirni voru strikuð út atkvæði sem greidd voru margsinnis úr sömu tölvu eða síma.
„Þetta er sigur fyrir okkur, þetta er sigur,“ sagði Grosjean tilfinningaþrungið á innhring í lok kappakstursins í Melbourne. „Mér líður eins og við stöndum á efsta þrepi verðlaunapallsins.“