Haasliðið hefur verið sektað um 5.000 evrur - um 645 þúsund krónur - fyrir að vinstra framhjólið losnaði frá bíl Esteban Gutierrez á 41. hring af 56 í Sepang í dag.
Atvik sem þetta eru afar sjaldgæf í keppni í formúlu-1 en ljóst þykir að felgan hafi ekki verið fest nægilega vel er Gutierrez stoppaði til dekkjaskipta er sýndaröryggisbíll var í brautinni í framhaldi af brottfalli Lewis Hamiltons.
Hvorki liðsmenn Haas né Gutierrez áttuðu sig á hvað gerst hafði. Í raun hafði búnaður sem festir felguna virkað rétt en bilun í íhlut leitt til þess að dekkið losnaði af. Komust því eftirlitsdómarar kappaksturins að þeirri niðurstöðu að bíl Gutierrez hafi verið hleypt óöruggum út í brautina. Það varði við öryggiskröfur formúlunnar og því hafi refsing verið óumflýjanleg. Hún á þó bara við um liðið, ekki ökumanninn.