Magnussen saupsáttur

Grosjean og Magnussen á Haas-bílunum í upphafi kappakstursins í Mónakó.
Grosjean og Magnussen á Haas-bílunum í upphafi kappakstursins í Mónakó.

Danski ökumaðurinn Kevin Magnussen hjá Haas segir sér líða sem hann sé að fara í gegnum sína verstu keppnistíð til þessa á ferli sínum í  formúlu-1. 

Þetta segir hann þrátt fyrir að Haas-liðinu hafi í fyrsta sinn í sögu sinni tekist í Mónakó að eiga báða bíla í stigasæti í móti. 

Um miðbik kappakstursins var Magnussen í níunda sæti og komst upp í það áttunda um skeið. Gat kom hins vegar á dekk rétt eftir dekkjastopp. Tilneyddur varð hann að fara inn að bílskúr og fá ný dekk undir bílinn.

Við það féll hann niður í þrettánda sæti en komst aftur upp á við vegna óhappa Sergio Perez, Daniil Kvyat og Stoffel Vandoorne og hafnaði í tíunda sæti. „Mjög svekkjandi kappakstur frá mínum bæjardyrum séð. En að klára með báða bíla í stigum er virkilega góð frammistaða hjá liðinu. Það verðskuldaði árangurinn og ég er ánægður með að við unnum báðir stig. Ég vann að vísu bara eitt, hefðu getað orðið fleiri. Mér líður eins og ég sé á minni verstu keppnistíð en ég er samt stoltur af liðinu,“ segir Magnussen.

Kevin Magnussen (t.v.) með liðsfélaga sínum Romain Grosjean við bílskúra …
Kevin Magnussen (t.v.) með liðsfélaga sínum Romain Grosjean við bílskúra Haas-liðsins í Mónakó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert