Haas einbeitir sér að 2018

Liðsstóri Haas, Guenther Steiner, segir að liðið hafi hætt áframframþróun 2017-bílsins nokkuð snemma og hafi síðustu vikur einbeitt sér að keppnisbíl næsta árs.

Kveðst Steiner gera sér vonir um að þetta skili sér í betri og samkeppnisfærari bíl á næsta ári, 2018.

Haas varð í sjöunda sæti í keppni liðanna í fyrra, á jómfrúrári sínu í formúlu-1, og stefnir að hækka sig um eitt sæti eða tvö í ár. Sem stendur er liðið í áttunda sæti en aðeins einu stigi á eftir Renault.

Sú ákvörðun að snúa sér snemma að þróun næsta árs bíl gæti gert þessar vonir Haas að engu. „Við viljum gera nokkrar grundvallar breytingar og getum því ekki að öllu leyti yfirfært núverandi bíl á þann næsta. Við fórum kannski nokkuð snemma út í þetta og það kemur ekki í ljós fyrr en í febrúar næstkomandi, þegar reynsluakstur 2018-bílanna hefst, hvort það hafi verið þess virði að breyta svona,“ segir Steiner við danska blaðið Ekstrabladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert