Romain Grosjean hjá Haas hefur verið refsað fyrir að vera valdur að árekstri á fyrsta hring Spánarkappakstursins.
Þarf franski ökumaðurinn að sætta sig við þriggja sæta afturfærslu á rásmarkinu í næsta móti, í Mónakó.
Grosjean snarsneri bíl sínum í þriðju beygju er hann hugðist færa sig ti lhliðar til að forðast samstuð við liðsfélaga sinn, hinn danska Kevins Magnussen.Greip hann til þess ráðs að stíga bensíngjöfina í botn í tilraun til að halda sig inni á brautinni. Við það myndaðist mikill reykur sem truflaði sýn keppinauta sinna.
Hvorki Nico Hülkenberg á Renault né Pierre Gasly á Toro Rosso tókst að forðast árekstur við Grosjean og lauk keppni þeirra einnig í þriðju beygju. Eftir atvikið var Hülkenberg hinn óhressasti og sagði að Grosjean yrði að vinna heimalærdóm sinn.