Romain Grosjean hjá Haas hefur verið dæmdur úr leik í ítalska kappakstrinum þar sem keppnisbíll hans stóðst ekki skoðun að keppni í Monza lokinni.
Grosjean kom sjötti í mark sem gaf honum og liði hans átta stig. Þessum stigum voru bæði hann og liðið svipt eftir skoðun bílsins.
Renault beindi þeim tilmælum til eftirlitsdómara kappakstursins að taka bíl Grosjean til skoðunar því nýr bílbotn kynni að brjóta í bága við reglur um gerð og fyrirkomulag botnsins.
Með upphaflegum úrslitum kappakstursins færðist Haas upp í fjórða sæti í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða, upp fyrir Renault. Haas fellur hins vegar aftur niður í það fimmta við brottreksturinn úr keppninni og er 10 stigum á eftir franska liðinu.
Ennfremur þýðir niðurstaðan að Sergej Sírotkín færist upp í tíunda sæti í mark og vinnur hann þar með sín fyrstu keppnisstig í formúlu-1. Esteban Ocon, Sergio Perez, Carlos Sainz og Lance Stroll færast sömuleiðis allir upp um sæti, í sjötta, sjöunda, áttunda og níunda.
Þá lyftist Force India upp fyrir Toro Rosso í sjöunda sætið í keppni liðanna, í aðeins öðrum kappakstri sínum sem Racing Point Force India.