Stíf megrun úr sögunni

Daniel Ricciardo er ánægður að geta borðað betur.
Daniel Ricciardo er ánægður að geta borðað betur. AFP

Daniel Ricciardo telur að nýjar reglur um lágmarksþyngd formúlubílanna geri það að verkum að stíf megrun ökumanna er úr sögunni. Geti þeir frá og með í ár raðað í sig kaloríum og styrkt sig meira með lyftingaræfingum.

Undanfarin ár hafa þyngdarreglur þýtt að stórir ökumenn eins og til dæmis Marcus Ericsson og Esteban Ocon hafa staðið höllum fæti. Vegna líkamsþyngdar hafa þeir neyðst í stífa megrun til að lágmarka tímatap á hring vegna þungans. Mun líkamsþyngdin hafa kostað Nico Hülkenberg starf hjá McLaren árið 2013.

Í nýju reglunum segir að ökumaðurinn og sæti hans verði saman að vega að lágmarki 80 kíló. Náist sú tala ekki verður að þyngja bílinn með kjölfestu í stjórnklefanum uns heildarþyngd bíls og ökumanns nær að lágmarki 743 kílóum.

Ricciardo telur að þetta þýði að ökumenn munu njóta matar síns betur á keppnishelgum. „Ég hef ekki þurft að kvarta en margir okkar hafa þurft að svelta á mótshelgum. Meir að segja á styrktaræfingum höfum við ekki getað tekið á til að auka kraftana því  það myndi leiða til aukins líkamsmassa og þar með aukinnar þyngdar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert