Hannes búinn að skrifa undir

Hannes Þór Halldórsson og forráðamaður Qarabag handsala samninginn.
Hannes Þór Halldórsson og forráðamaður Qarabag handsala samninginn.

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, gekk rétt í þessu frá samningum við Qarabag, meistaralið Aserbaídsjan, sem kaupir hann af Randers í Danmörku.

Hannes og Ólafur Garðarsson umboðsmaður gengu frá málum í Kössen í Austurríki þar sem Qarabag er við æfingar þessa dagana.

Samningurinn er til næstu tveggja ára, til sumarsins 2020, með möguleika á framlengingu um eitt ár.

Qarabag lék í Meistaradeild Evrópu síðasta vetur þar sem liðið gerði jafntefli í báðum leikjum sínum við Atlético Madrid, 0:0 í Bakú og 1:1 í Madríd, en tapaði leikjum sínum heima og heiman gegn Chelsea og Roma. Liðið tryggði sér sæti í riðlakeppninni með því að slá út FC København í umspili undankeppninnar. Liðið hefur þrisvar á undanförnum árum leikið í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA.

Qarabag varð meistari í Aserbaídsjan með miklum yfirburðum í vor en liðið endaði sextán stigum á undan næsta liði. Ibrahim Sehic, landsliðsmarkvörður Bosníu, var aðalmarkvörður liðsins á síðasta tímabili en hann er farinn frá félaginu.

Tímabilið hjá Qarabag hefst í næstu viku þegar liðið mætir Olimpija Ljubljana frá Slóveníu í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Fyrr í dag setti Qarabag þessa skemmtilegu færslu á Twitter-síðu sína þar sem gefnar voru vísbendingar um hvaða leikmaður væri að koma til félagsins:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert