„Sala er bardagamaður“

Emiliano Sala fagnar marki fyrir Nantes.
Emiliano Sala fagnar marki fyrir Nantes. AFP

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Fulham, var í áfalli yfir fréttum af Emiliano Sala, fyrrverandi lærisveini sínum hjá Nantes í Frakklandi. Sala var um borð í flugvél sem leitað er að á Ermar­sundi, en talið er að flugvélin hafi hrapað og eru miklar líkur á að Sala og flugmaður vélarinnar séu látnir.

Sala var markahæsti leikmaður Nantes tímabilið 2017/18 með tólf mörk, er Ranieri var við stjórn og þekktust þeir vel. Sala samdi við Cardiff um helgina, en hann fór aftur til Nantes til að kveðja liðsfélaga sína. Allt bendir til þess að flugvélin hafi hrapað á leiðinni aftur til Cardiff.

„Eins og allir aðrir er ég í áfalli yfir þessum fréttum. Emiliano er yndisleg manneskja. Ég þekkti hann vel og veit að hann er bardagamaður. Hann er virkilega góður fótboltamaður sem gaf alltaf allt sem hann átti. Við höldum áfram að biðja og vonast eftir jákvæðum fréttum,“ sagði Ranieri í samtali við Sky Sports.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert