Mikil dramatík þegar Kamerún fór áfram

Ajara Nchout skaut Kamerún áfram með marki í uppbótartíma.
Ajara Nchout skaut Kamerún áfram með marki í uppbótartíma. AFP

Ajara Nchout reyndist hetja Kamerún þegar liðið vann ótrúlegan 2:1-sigur gegn Nýja-Sjálandi í lokaumferð E-riðils heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu Mosson-vellinum í Montpellier í Frakklandi í dag. Nchout var allt í öllu í sóknarleik Kamerún en hún kom sínu liði yfir á 57. mínútu en Aurelle Awona skoraði afar klaufalegt sjálfsmark á 80. mínútu og jafnaði þar með metin fyrir Nýja-Sjáland.

Nchout tryggði svo Kamerún sigur með marki á fimmtu mínútu uppbótartímans og Kamerún fagnaði dramatískum sigri og sæti í sextán liða úrslitum keppninnar en liðið fer áfram á kostnað Nígeríu en bæði lið enduðu með þrjú stig í sínum riðlum. Bæði lið voru með nákvæmlega sömu markatölu líka og því fer Kamerún áfram á færri uppsöfnuðum gulum spjöldum.

Þá tryggði Holland sér efsta sæti E-riðils með 2:1-sigri gegn Kanada á Auguste Delaune-vellinum í Reims. Anouk Dekker kom hollenska liðinu yfir á 54. mínútu en Christine Sinclair jafnaði metin fyrir Kanada, sex mínútum síðar. Lineth Beerensteyn tryggði Hollandi sigur og efsta sæti riðilsins með marki á 75. mínútu en bæði lið voru komin áfram í sextán liða úrslit keppninnar fyrir leiki dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert