Tvö íslensk mörk og ótrúlegur sigur

Davíð Kristján Ólafsson með treyju Álasunds. Hann fór mikinn í …
Davíð Kristján Ólafsson með treyju Álasunds. Hann fór mikinn í dag. Ljósmynd/Álasund

Það voru tveir Íslendingar á skotskónum í norsku B-deildinni í knattspyrnu í leikjum sem nú var að ljúka. Báðir fögnuðu þeir sigri með liðum sínum, en annar sigurinn var hreint lygilegur.

Kristján Flóki Finnbogason, sem er að spila sína síðustu leiki áður en hann gengur í raðir KR í lok mánaðar, byrjaði á bekknum hjá Start þegar liðið fékk HamKam í heimsókn. Flóki kom inn á sem varamaður á 78. mínútu og aðeins fimm mínútum síðar var hann búinn að skora fjórða mark liðsins, sem fagnaði 4:1 sigri.

Þetta var fyrsta mark hans á leiktíðinni en Start komst upp í fjórða sætið með sigrinum og er þar með 25 stig eftir 13 leiki. Aron Sigurðarson spilaði allan leikinn með Start, sem leikur undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar.

Íslendingaliðið Aalesund heimsótti KFUM Ósló og vann ótrúlegan 4:2 sigur. Davíð Kristján Ólafsson skoraði fyrsta mark Aalesund þegar hann jafnaði 1:1, beint úr hornspyrnu, í byrjun síðari hálfleiks. Þetta var fyrsta deildarmark hans fyrir liðið eftir að hann gekk í raðir þess frá Breiðabliki í vetur.

KFUM komst yfir á ný og virtist ætla að tryggja sér sigur, en Aalesund hélt nú ekki. Íslendingaliðið jafnaði á 89. mínútu, komst yfir á fyrstu mínútu uppbótartíma eftir stoðsendingu Davíðs Kristjáns, og skoraði svo fjórða markið mínútu síðar. Lokatölur 4:2.

Davíð Kristján spilaði allan leikinn fyrir Aalesund eins og þeir Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson. Hólmbert Aron Friðjónsson var einnig í byrjunarliðinu en fór af velli á 68. mínútu. Aalesund er með fimm stiga forskot á toppnum með 35 stig eftir 14 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert