Tíu leikmenn Ajax sluppu með skrekkinn

Ajax slapp með skrekkinn gegn APOEL í kvöld.
Ajax slapp með skrekkinn gegn APOEL í kvöld. AFP

Hollenska liðið Ajax, sem fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á síðustu leiktíð, slapp með skrekkinn í kvöld er liðið mætti APOEL Nicosia frá Kýpur á útivelli í umspili um sæti í riðlakeppninni.

Lokatölur urðu 0:0-jafntefli, sem Ajax sættir sig sennilega við miðað við gang leiksins. Alls fengu leikmenn Ajax sjö gul spjöld í leiknum og Noussair Mazraoui fékk tvö þeirra.

Það seinna kom á 80. mínútu og lék Ajax því síðustu tíu mínúturnar manni færri. Liðin mætast í Amsterdam eftir viku í síðari leiknum. 

Slavía Prag frá Tékklandi gerði góða ferð til Rúmeníu og vann 1:0-sigur á Cluj. Lukás Masopust skoraði sigurmarkið á 28. mínútu. 

Þá vann belgíska liðið Club Brugge góðan 1:0-útisigur á LASK Linz frá Austurríki. Hans Vanaken skoraði sigurmarkið úr víti á 10. mínútu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert