Undir mér sjálfum komið

Samúel Kári Friðjónsson lék sinn fyrsta leik í þýsku 1. …
Samúel Kári Friðjónsson lék sinn fyrsta leik í þýsku 1. deildinni á dögunum gegn Bayern München. AFP

„Þetta var frábært, það hefur verið draumur minn síðan ég var í sjötta flokki í Keflavík að spila í einhverri af bestu deildum í heimi og það er orðið að veruleika,“ sagði Samúel Kári Friðjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær.

Hann lék sinn fyrsta leik með Paderborn í þýsku Bundesligunni á föstudagskvöldið og óhætt er að segja að hann hafi byrjað á toppnum því leikurinn var gegn stórliði Bayern München, á Allianz-leikvanginum frammi fyrir 75 þúsund áhorfendum. Bayern vann nauman sigur á nýliðunum, 3:2, með marki frá Robert Lewandowski á 88. mínútu.

„Þetta voru einhverjar fimmtán mínútur sem ég fékk, ég kom inn á í mína stöðu sem djúpur miðjumaður, og mér gekk bara vel. Við áttum mjög góðan leik og vorum nærri því að fá stig en það slokknaði á okkur í tíu sekúndur undir lokin og það dugði Lewandowski til að skora. Að sjálfsögðu er lið Bayern gríðarlega sterkt og það sást vel gegn Chelsea í Meistaradeildinni,“ sagði Samúel, en Bayern vann þann leik á afar sannfærandi hátt, 3:0, í London í fyrrakvöld.

Hér eru allir leikmenn góðir

Hann kom til Paderborn um áramótin frá Noregi þar sem hann lék með Vålerenga og var í láni hjá Viking í Stavanger á síðasta ári. Samúel kann mjög vel við sig í þessari 150 þúsund manna borg sem er í Þýskalandi miðju, um 100 km austur af Dortmund.

„Ég er búinn að vera hérna í Paderborn í tvo mánuði og hef náð að aðlagast mjög vel. Ég er kominn á góðan stað, mér líður vel, og sé fram á að fá fleiri mínútur í liðinu á næstunni.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert