Vissi ekki að hann væri búinn að tryggja sigurinn

Gianluigi Donnarumma ver vítaspyrnu Bukayo Saka og tryggir Ítalíu Evrópumeistaratitilinn.
Gianluigi Donnarumma ver vítaspyrnu Bukayo Saka og tryggir Ítalíu Evrópumeistaratitilinn. AFP

Gianluigi Donnarumma, markvörður ítalska karlalandsliðsins í knattspyrnu, varði tvær vítaspyrnur í úrslitaleik liðsins gegn Englandi á Evrópumótinu og tryggði Ítalíu sigur með því að verja fimmtu og síðustu spyrnu Englendinga.

Þá varði Donnarumma frá hinum 19 ára gamla Bukayo Saka. Hann var þó ekkert mikið að kippa sér upp við það.

„Ég fagnaði því ekki að hafa varið vítaspyrnuna því ég áttaði mig ekki á því að við værum búnir að vinna,“ sagði Donnarumma í samtali við Sky á Ítalíu í gær.

Innileg fagnaðarlæti liðsfélaga hans í kjölfar vörslunnar urðu þó skjótt til þess að hann kveikti á perunni.

Donnarumma, sem er aðeins 22 ára gamall en er þrátt fyrir það afar leikreyndur, var valinn besti leikmaður EM að loknum úrslitaleiknum.

Hann samdi á dögunum við franska stórliðið París Saint-Germain eftir að hafa yfirgefið uppeldisfélag sitt AC Milan í kjölfar þess að samningur hans við Mílanó-liðið rann út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert