Real Madrid í undanúrslit eftir vítaspyrnukeppni

Liðsmenn Real Madrid fagna Antonio Rudiger eftir að hann skoraði …
Liðsmenn Real Madrid fagna Antonio Rudiger eftir að hann skoraði sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni í kvöld. AFP/Darren Staples

Manchester City fékk Real Madrid í heimsókn í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Liðin buðu upp á skemmtilegan leik sem lauk með óvæntum sigri gestanna eftir vítaspyrnukeppni.

Fyrstu mínútur leiksins fóru rólega af stað en á 12. mínútu kom fyrsta markið. Vinicius Jr. átti þá fyrirgjöf á landa sinn Rodrygo sem náði að skoti að marki af stuttu færi en Ederson varði vel í marki heimamanna. Rodrygo hirti hinsvegar frákastið og skoraði í autt markið og gestirnir komnir með forystuna.

Rodrygo fagnar fyrsta marki leiksins í kvöld.
Rodrygo fagnar fyrsta marki leiksins í kvöld. AFP/Paul Ellis

Þá tóku heimamenn öll völd á vellinum og reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn fyrir hálfleiksflautið en allt kom fyrir ekki.

Næst því komst þó norski markahrókurinn Erling Braut Haaland en hann skallaði í þverslána á 19. mínútu eftir fyrirgjöf frá Bernardo Silva.

Gestirnir náðu að lifa af fyrri hálfleikinn og voru fegnir að heyra hálfleiksflautið frá Daniele Orsato, dómara leiksins.

Meira af því sama var uppi á teningnum í seinni hálfleiknum, Manchester City sótti án afláts en markið lét ekki sjá sig fyrr en á 76. mínútu. Þar var að verki belgíski galdramaðurinn Kevin De Bruyne. Jeremy Doku átti þá fyrirgjöf sem Antonio Rudiger náði ekki að hreinsa frá. Boltinn datt beint fyrir fæturnar á De Bruyne sem setti boltann upp í þaknetið, óverjandi fyrir Lunin í markinu og allt orðið jafnt, 1:1.

Kevin De Bruyne fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Kevin De Bruyne fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld. AFP/Paul Ellis

De Bruyne fékk síðan dauðafæri til að koma City yfir á 79. mínútu eftir sendingu frá Manuel Akanji. De Bruyne var þá einn og óvaldaður á vítapunkti gestanna og lét vaða að marki en skot hans fór yfir markið og gestirnir önduðu léttar.

Meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma og flautaði Daniele Orsato til leiksloka og framlenging því staðreynd.

Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar fékk Antonio Rudiger dauðafæri til að koma gestunum yfir en skot hans fór yfir mark heimamanna.

Meira gerðist ekki markvert í framlengingunni og vítaspyrnukeppni tók því við til að ákvarða hvoru liðinu myndi takast að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Í vítaspyrnukeppninni reyndist Andriy Lunin, markvörður Real Madrid, vera hetjan því hann varði tvær spyrnur heimamanna frá Bernardo Silva og Mateo Kovacic. Það var síðan Antonio Rudiger sem tryggði sigur Real Madrid og skaut þeim í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Man. City 4:5 Real Madrid opna loka
122. mín. Leik lokið Real Madrid fer í undanúrslit eftir sigur í vítaspyrnukeppni þar sem Antonio Rudiger skoraði sigurmarkið og Andriy Lunin var hetjan en hann varði tvær spyrnur heimamanna. Takk fyrir þetta maraþonkvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert