Stjórinn skrautlegi tekinn við að nýju

Steve Evans er tekinn við Rotherham að nýju.
Steve Evans er tekinn við Rotherham að nýju. AFP

Enska knattspyrnufélagið Rotherham United hefur ráðið Skotann Steve Evans sem knattspyrnustjóra karlaliðsins í annað sinn.

Skrifaði hann undir þriggja ára samning, en Rotherham er þegar fallið úr B-deildinni niður í C-deild.

Evans var áður stjóri Rotherham á árunum 2012 til 2015, þegar fyrrverandi landsliðsmaðurinn Kári Árnason lék með liðinu.

Skotinn litríki stýrði þá liðinu upp úr D-deild í B-deild á tveimur árum og tókst að halda liðinu í næstefstu deild á þriðja árinu, tímabilið 2014-15.

Í viðtölum hefur Evans vakið athygli fyrir að vera með munninn fyrir neðan nefið enda hefur hann í gegnum árin átt það til að láta mann og annan heyra það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert