Felgubyssur Haas-liðsins virkuðu ekki allar sem skildi í kappakstrinum í Melbourne í morgun. Hefur liðið verið sektað um 10.000 dollara fyrir að hleypa bílunum af stað þótt felguró vinstra megin að aftan festist ekki tryggilega við dekkjaskipti.
Vegna þessa urðu bæði Kevin Magnussen og Romain Grosjean að aka bílunum út í brautarkant strax eftir útkomu í brautina úr dekkjastoppi.
Var það afar svekkjandi fyrir liðið sem hóf keppni af fimmta og sjötta rásstað og var Magnussen fjórði er hann stoppaði nauðbeygður og Grosjean í fimmta.
Ekki hefur verið krufið til mergjar hvað olli því að bílarnir féllu úr leik með aðeins hrings millibili. Á sjónvarpsmyndum mátti sjá að bílunum var hleypt af stað meðan vélvirkjar veifuðu höndum til marks um að eitthvað væri í ólagi.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um vonbrigði liðsmanna Haas. Martröð lýsir þeim best. „Það er afar erfitt að kyngja þessu, fyrir allt liðið, að koma ekki bílunum í höfn í þessum fínu sætum sem við vorum í. Það er átakanlegt að ljúka keppni svona. Við munum komast fyrir vandann og mæta að nýju vígamóðir og berjast,“ sagði Magnussen hinn danski.