Kolbeinn undir Íslandsmeti

Kolbeinn Höður á fleygiferð í kvöld.
Kolbeinn Höður á fleygiferð í kvöld. mbl.is/Hákon

Kolbeinn Höður Gunnarsson, Íslandsmethafinn ásamt Ara Braga Kárasyni, kom fyrstur í mark í undanúrslitum í 100 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum í Mjóddinni í kvöld.

Kolbeinn kom í mark á 10,40 sekúndum, sem er undir Íslandsmetinu, sem er 10,51 sekúnda. Meðvindur var hins vegar ögn of mikill til að tíminn telji sem nýtt met og verður FH-ingurinn því áfram að sætta sig við að deila metinu.

Kolbeinn Höður Gunnarsson eftir hlaupið.
Kolbeinn Höður Gunnarsson eftir hlaupið. mbl.is/Hákon

Kolbeinn hefur áður hlaupið undir Íslandsmetinu á árinu, en þá var meðvindur einnig of mikill. Arnar Logi Brynjarsson úr ÍR, sem er fæddur árið 2007, varð í öðru sæti á 10,97 sekúndum. FH-ingurinn Ari Bergmann Ægisson var þriðji á 11,13 sekúndum.

Úrslitahlaupið fer fram á morgun og hefst klukkan 15:10. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert